Einkenni siðblindu

Þótt greiningin sé tekin af Stundinni er hún ekki unnin af blaðamanni heldur höfð eftir kanadíska sálfræðingnum Robert D. Hare.

1. Tungulipurð og yfirborðskenndir persónutöfrar - Gummi bróðir getur sannarlega komið vel fyrir.

2. Stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti - Gummi bróðir er haldinn þeim ranghugmyndum.

3. Skortur á eftirsjá eða sektarkennd - Gummi bróðir hefur a.m.k. sýnt mér fullkominn skort á eftirsjá þótt hann stolið af sínu nánasta fólki.

4. Skortur á samhygð - ég hélt að Gumma bróður hefði þótt vænt um mömmu og viljað ýmislegt gera fyrir hana en nú er ég búin að átta mig á að hann var allan tímann að misnota gæði hennar og greiðvikni. 

5. Svikulir og stjórnsamir/drottnunargjarnir - mér finnst svikull og drottnunargjarn ekki alveg nógu líkt. Gummi bróðir er svikull en líka lunkinn að fela það.

6. Yfirborðskennt tilfinningalíf - tjah, Gummi bróðir vorkenndi sjálfum sér einlæglega en ég held að aðrar tilfinningar séu yfirborðskenndar. 

7. Hvatvísi - Gummi bróðir hefur hlaupið til og keypt sólbaðsstofu, bílaleigu og fleira að óathuguðu máli. Einhverjum finnst það kannski til marks um að vera séður og útsjónarsamur. Allt hefur farið á hausinn hjá honum. Það sem lengst gekk, sjoppan Póló á Bústaðaveginum, gerði það af því að mamma og pabbi voru akkerið hans.

8. Léleg sjálfsstjórn - Gummi bróðir þarf alltaf að hafa fyrsta og síðasta orðið og leyfir aldrei öðrum að komast að. Ég á 20 ára gamalt bréf frá sjálfri mér til hans (sem ég sendi honum ekki) þar sem ég sagðist skrifa honum af því að annars kæmist ég ekki að. Samt dugði það ekki til að ég hætti að greiða götu hans.

9. Spennufíkn - skýrasta einkennið á Gumma bróður. Hann hefur alltaf þurft að kaupa hótel, gallerí, nýjan bíl, bílasölu, lifa hátt og hratt og magalenda ... nema þegar mamma og pabbi spenntu út öryggisnetið, já, og ég sjálf.

10. Ábyrgðarleysi - alltaf hefur allt verið öðrum að kenna, ekki honum. Það var bankinn, það var kúnninn, það var vinnuveitandinn, það var kona, það var hrunið, það var fasteignasalinn, það var einhver annar, aldrei hann.

11. Hegðunarvandi í æsku - þetta kom mér mest á óvart í upptalningunni en á því miður óskaplega vel við Gumma sem byrjaði að drekka vel fyrir fermingu, rændi mörgum árum af mömmu með útstáelsi, uppivöðslusemi í skóla, fylleríi í tímum og smáglæpum hafi ég skilið sögurnar rétt. Ég er yngri en Gummi.

12. Andfélagsleg hegðun á fullorðinsaldri - ég er ekki alveg viss um merkinga þessa punkts en Gummi er búinn að vera í AA næstum frá því að ég man eftir mér. Hann hætti að drekka 24 ára eða svo, hrasaði einu sinni og hætti svo aftur. Hins vegar virðist egóið hans pumpast upp á AA-fundum og ég held að AA næri narsissistann. 

Ég hef ekki staðið Gumma bróður að líkamlegu ofbeldi en ég sé ekkert beint um það heldur í punktunum. Allt annað passar. Allt. ALLT. Og þótt ég sé búin að ergja mig mikið yfir honum í tvö ár tengdi ég aldrei við glæpina sem hann framdi sem unglingur. Þegar ég var að verða unglingur var allt heimilislífið undirlagt af því að mamma var á vaktinni allar helgar til að bregðast við símhringingum. Hann byrjaði að drekka áfengi 11 eða 12 ára, flutti inn eða reyndi að flytja inn fíkniefni fyrir tvítugt. Hann kennir alltaf öðrum um allt, öllum vinnuveitendum, öllum mögulegum kærustum, fyrrverandi eiginkonu og ég held svei mér dætrum sínum tveimur líka. Hann dró ekki af sér að hía á mig fyrir að taka ekki námslán heldur vinna með námi, þannig gæti ég ekki haft nógu mikið af hinu opinbera meðan vextir á námslánum voru lágir. Hann híaði á pabba fyrir að hafa allt sitt á hreinu og stökkva ekki á öll tilfallandi fjárfestingarverkefni sem Gummi vildi meina að skiluðu miklum gróða og hratt. Og örugglega. Þegar hann fékk lán hjá mér, áður en stóru mistökin voru gerð, ætlaði hann alltaf að endurgreiða með miklum vöxtum og redda mér hinu og þessu sem ég bað ekki um. Ég bað aldrei um neitt en ég fékk heldur aldrei neitt nema aðfinnslur og háðsglósur.

Og þá er stóra spurningin: Af hverju greiddi ég svona mikið götu hans?

Ég get ekki svarað henni með öðru en þessu: Fjölskyldukærleikur blindaði mig. Ég vildi taka einhver högg af mömmu og pabba. 

Hér er nýleg mynd af honum.

Gummi júlí 2020


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband