Gagnrýnin hugsun

Gagnrýni er ekki alltaf tuð. Gagnrýni er ekki alltaf neikvæð en sá sem er gagnrýndur tekur því stundum þannig. Gagnrýni getur verið góð en henni þarf að beina í réttan farveg. Ég held að Facebook sé ekki sá farvegur, nær væri að hafa samband við framleiðandann ef varan hefur breyst og t.d. rýrnað. Við þekkjum mörg dæmi um súkkulaði sem er minnkað í stað þess að hækka verðið. Súkkulaðigrísir eins og ég hugsa stundum: Jæja, þá borða ég bara minna. 

En stundum eru umbúðirnar einfaldlega of stórar, pokar fullir af lofti, og maður kaupir vöruna í góðri trú. Þá er annað hvort að hafa samband við framleiðandann og biðja um breytingu eða skýringu, nú, eða að hætta að kaupa hana. Margir neytendur greiða atkvæði með buddunni og þá eru skilaboðin skýr.

Og afsakið að ég segi það, en alleiðinlegustu viðbrögðin við gagnrýni eru: Hefurðu ekkert annað að gera? Skiptu bara um rás. Ertu áttræð? 

Ef fólk vill taka þátt í umræðunni væri ágætt að það tæki þátt á þeim forsendum sem lagt er af stað með. Ef einhver spyr: Hvort skrifið þið grúppa eða grúbba? er ekki rétta svarið: Það á að skrifa hópur.

Já, og eitt enn. Skítkast út í fólk fyrir að skrifa „vitlaust“ er ömurlegt. Ef við ætlum að tala íslensku til lengri framtíðar verðum við að hafa umburðarlyndi gagnvart því að tungumálið breytist. Það er um að gera að vanda sig en sem betur fer býr íslenskan yfir fjölbreytni og sem betur fer þróast hún. Við segjum margt í dag sem var álitið rangt af kynslóðunum á undan okkur. Tvö dæmi: Við sjáumst (var sjáustum). Læknar í fleirtölu (var læknirar). Málfræðingar eru umburðarlyndasta fólkið í þessum efnum og hinir flinku menn Eiríkur Rögnvaldsson og Höskuldur Þráinsson eru óþreytandi við að útskýra uppruna orða og rökstyðja af hverju við eigum ekki að fara fram með offorsi. Það er nefnilega ekki gagnrýni, það er dónaskapur og niðurrif að setja sig á háan hest og drulla yfir fólk fyrir að vera öðruvísi.

Að svo mæltu auglýsi ég eftir fleiri kommum í ritmáli fólks. Þær geta gert gæfumuninn:

Eigum við að borða Einar?

Eigum við að borða, Einar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband