17.104

Í júlí voru víst rúmlega 17.000 manns án atvinnu. Fallið úr kannski 800.000 kr. tekjum í 290.000 er býsna hátt og launamenn eiga enga sök á því. En í stað þess að einblína á að hækka atvinnuleysisbætur finnst mér við þurfa að hugsa atvinnulífið upp á nýtt. Fyrir mestu er að fólk hafi framfærslu og að ákveðin verk séu unnin. Nú er lag að stytta vinnuvikuna og jafna störfin þannig að allir vinnufærir menn eigi kost á vinnu og afkomu. Auðvitað eru sum störf svo sérhæfð að það tekur mörg ár að ná færni í þeim en hvaða skynsemi er í 40 stunda vinnuviku núna þegar tæknin hefur leyst marga af hólmi? 

Störf tapast, segir fólk, þegar kaupendur geta skannað vörurnar í búðinni og borgað án þess að manneskja afgreiði þá. Já, en þá ætti að stytta vinnuvikuna án þess að lágu launin í búðinni skerðist. Enginn tapar á því. Enginn. Hins vegar verða til önnur verk við viðhald á móti en þau er ekki endilega hægt að vinna á gólfinu.

En afsakið að ég segi upphátt að meðfram styttingu vinnuvikunnar þarf að taka fyrir skrepp fólks. Á vinnutíma á fólk aðeins að geta farið til læknis, tannlæknis, í jarðarfarir nákominna og foreldraviðtöl vegna barna. Fólk á ekki að fara í klippingu á vinnutíma, ekki í búðir, ekki í tveggja tíma mat með vinunum, ekki með bílinn í skoðun – ekki upp á það að skilja verkefnin eftir hjá vinnufélögunum.

Afsakið að ég sé ekki búin að finna og forma einu réttu lausnina en orð eru til alls fyrst og samfélagið þarf sameiginlega að finna jafnvægið í vinnu og afkomu. Ég valdi – en valdi samt ekki – að vinna mér til húðar í 25 ár og valdi svo í fyrrahaust að taka skref til baka og vona að mér lánist að halda mig við hóflegan vinnutíma í framtíðinni. Þótt vinnan sé skemmtileg er hún ekki lífið eins og það leggur sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eitt með skrepp á vinnutíma sem mig langar að benda á, en það er munurinn á því að skreppa á vinnutíma og að skreppa úr vinnunni. Ég  skrepp úr vinnunni í klippingu tvisvar á ári á tímanum á dagvinnutíma ... en þá er ég hins vegar ekki í vinnunni. Ég skila vinnuskýrslu og eðli málsins samkvæmt er tíminn í klippingu ekki hluti af þeirri vinnu sem ég skrái. Ef ég fer frá t.d. í 3 klst vegna þessa þá þarf ég að vinna þær upp á öðrum tíma eða skrá frí. Þetta kallast að vera með sveigjanlegan vinnutíma og það finnst mér algjörlega frábært. Ég öfunda ekki fólk sem hefur ekki þennan sveigjanleika og kemst aldrei frá til að sinna erindum.

Mín ábending er sem sagt að skrepp á vinnutíma - á tíma sem telst til vinnutíma er eitthvað sem þekkist ekki á öllum vinnustöðum. Ég er í sumarfríi eða vinn af mér síðar, ef ég fer á jarðarför, í klippingu, í búðir, tveggja tíma mat með vinum, með bílinn í skoðun og í foreldraviðtal. Skrepp á vinnutíma, eins og þú talar um, er því starfsmannamál á vinnustað en ekki samfélagsmein.  

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 24.8.2020 kl. 08:45

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Satt segirðu, vandamál á vinnustað ... en samt vinnustöðum og bitnar á þeim sem hafa ekki samvisku til að skreppa á kostnað vinnuveitanda og samstarfsfólks. Ég er líka hlynnt sveigjanleika, guð minn góður, og myndi flokka foreldraviðtal í skóla eins og veikindi barna, eitthvað sem verður ekki umflúið á vinnutíma.

Berglind Steinsdóttir, 24.8.2020 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband