22. ágúst 2019

Í dag er gleðidagur. Í dag er ígildi menningarnætur og Reykjavíkurmaraþons og í dag skín sólin. Engu að síður kýs ég nú að líta um öxl og rifja upp 22. ágúst í fyrra þegar pabbi minn skildi við. Hann var orðinn 98 ára og búinn að eiga gott líf. Síðustu tvö árin voru samt sársaukafull af því að þá var hann svo hjálparvana, maðurinn sem hafði alltaf rétt öðrum hjálparhönd, maðurinn sem ég gat alltaf reitt mig á. Ég var orðin hjálparhellan hans og það var auðvitað sjálfsagt mál en það tók á að sjá hann missa sjálfstæði sitt en halda skýrri hugsun. Í dag kýs ég því að horfa inn á við og minnast pabba skriflega.

Lýs, milda ljós.

Hann var „bara“ rafvirki svo notuð séu hans orð. Við ræddum þetta alloft og ég varð alltaf jafn forviða á að hann skyldi tala sjálfan sig og starfið niður. Rafmagn er einhver merkilegasta uppfinningin og það að hafa vald á vinnu við það er algjörlega stórkostlegt. Pabbi var iðinn við kolann, stofnaði eigið fyrirtæki, var alltaf vinsæll í vinnu og kom rafmagni í margar stórbyggingar um miðja 20. öld. Þar fyrir utan var hann rafvirki allrar fjölskyldunnar og alltaf bóngóður. Því miður heldur ekkert okkar systkinanna kyndlinum á lofti.

Það er bara ár síðan hann dó, samt svo langur tími og allan þennan mánuð hef ég fundið ógnarsterkt fyrir nærveru hans. Ég vona að hann hann hafi fundið mömmu í græna landinu og fái bæði púðursykurstertu og pönnukökur eins og hann getur í sig látið.

Ég ætla að njóta veðurblíðunnar í hans anda því að meiri sólarfíkill er vandfundinn. 

Mynd gæti innihaldið: 4 mannsEs. Ég sá hann næstum aldrei svartklæddan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband