Miðvikudagur, 26. ágúst 2020
Punktur í lok setningar á netinu (í spjalli)
Það eru alls konar tákn í gangi alls staðar og stundum sendir maður sjálfsagt ómeðvituð skilaboð. Í spjallinu á Facebook er ég óformlegri en í öðrum textum og byrja setningar yfirleitt á lágstaf og enda ekki með punkti. Ef ég er að skrifa í símanum kemur sjálfkrafa hástafur fremst og þá enda ég á punkti. Mér finnst það rökrétt.
Ég hef heyrt að þau sem eru núna um tvítugt taki punkti í lok setningar sem skömmum. Dæmi: Foreldri skrifar: Mér finnst að þú ættir að fara að sofa núna.
Afkvæmið segir að foreldrið sé að skammast og ætti frekar að skrifa, þá mildilega: Mér finnst að þú ættir að fara að sofa núna
Mér finnst óþægilegt að sjá heilar setningar sem byrja á stórum staf enda í lausu lofti en ég held að sú breyting hafi byrjað á því að í símum þarf fólk að skipta á milli lyklaborða til að ná í greinarmerki. En punktur þýðir ekki að ég sé reið og alls ekki öskureið ef ég set þrjá punkta ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.