Dánarbú lifandi manns

Við vitum öll að lifandi menn skilja ekki eftir sig dánarbú en þetta er samt orðalagið sem Gummi bróðir lét lögfræðinginn sinn skrifa í umboði sínu þar sem hann fól lögfræðingnum að krefjast fjárræðissviptingar pabba eftir atvikum.

Í dag er nákvæmlega ár og dagur síðan ég sá Gumma síðast, ár og dagur síðan pabbi var jarðaður, 5. september 2019. Það er lengra síðan ég talaði við Gumma því að hann rétt skaust í jarðarförina, mætti ekki í kistulagninguna og ekki í erfidrykkjuna, kom bara eins og ókunnugur maður í jarðarförina og spjallaði við vandalaust fólk á aftasta bekk. Við hin systkinin þrjú sátum með ekkasog á fremsta bekk, líka 69 ára bróðir minn sem var mikið hjá pabba og m.a. þegar hann skildi við. Nú hellast tilfinningarnar aftur yfir mig. Pabbi var orðinn 98 ára en kýrskýr í kollinum og alls ekki sáttur við að fara. Hann var það ekki en líkaminn var farinn að gefa sig og ég leyfi mér að segja að Hrafnista reyndist honum ekki vel. Hann fékk að borða og fékk lyf en litla hlýju og varla nokkuð umfram það sem er væntanlega í starfslýsingunum. Og þetta var ekki ókeypis, alls ekki.

Við Kolbrún og Trausti og börnin þeirra og vissulega önnur dóttir Gumma gerðum eins og við gátum til að létta honum lífið, en það eru 24 stundir í sólarhringnum þannig að það voru samt margar klukkustundir á degi hverjum sem hann var afskiptur. Og ég ætla líka að segja það að hann var ítrekað skilinn eftir á klósettinu ... af því að ... eitthvað. Hann datt af klósettinu, hann datt á ísskápinn og okkur var sagt að starfsfólkið hefði í mesta lagi verið eina mínútu í burtu. Það stenst enga skoðun og við systur lágum ekki á skoðun okkar. Ég veit að skaðinn er skeður og ég get ekkert gert fyrir pabba lengur en þetta er ekki rétt. Stundum var fáliðað á ganginum en stundum var starfsfólkið bara upptekið af sjálfu sér.

En aftur að Gumma. Eins og lesendur síðunnar vita lánaði ég Gumma 7 milljónir árið 2008, 5 milljóna handveð sem bankinn gekk að og 2 milljónir til viðbótar til að borga reikninga fyrirtækis sem hann rak. Hann bað mig og ég sagði já af því að bankar rukka svo svívirðilega vexti og ég vildi spara honum lántökukostnað og mikinn vaxta- og jafnvel dráttarvaxtakostnað. Ég átti að sönnu peninginn og var aflögufær en varla er hægt að telja mér það til vansa að hafa farið vel með. Í umboðinu kallar lögfræðingurinn skuldina fyrnda en ég er ekki banki og skuldin ekki viðskiptaskuld. Að auki hafði Gummi fengið mikla peninga lánaða hjá mömmu og pabba og ég vissi að hann færi annars enn til þeirra og þau tóku nærri sér að fyrirtækið stæði svona illa. Ég á 20 ára gamalt bréf frá mömmu sem hún skrifaði Gumma og reyndi að koma vitinu fyrir hann varðandi reksturinn en hún sagði líka: Það þýðir ekki að tala við þig, þú grípur alltaf fram í, leyfir mér aldrei að klára og þá fer ég alltaf að gráta. - En svo sendi hún honum það ekki, heldur var það í pappírum sem ég hef farið í gegnum í búinu þeirra mömmu og pabba.

Gott fólk í kringum mig hefur hvatt mig til að sleppa tökunum, afskrifa skuldina og jafnvel fyrirgefa Gumma. Mér finnst það ekki gott ráð. Gummi er ólíklegur til að hætta að misbjóða fólki í kringum sig og nú er hann kallaður garðyrkjumaður á Sólheimum. Ég veit að fólk þar veit að það þarf að varast hann en kannski ekki það fólk sem er í mestri hættu. Hann getur auðvitað verið stimamjúkur eins og einkennir siðblint fólk.

Til viðbótar við skuldina við mig hafði hann fengið 10,5 milljónir lánaðar hjá mömmu og pabba og þá er ótalið það sem þau gáfu honum. Hann hefur þannig mögulega haft af sínu nánasta fólki upp undir 20 milljónir ef bara höfuðstóllinn er reiknaður saman. Og, nei, ég ætla ekki að hætta að innheimta skuldina. Öll góð ráð um að sleppa tökunum verða ekki þegin fyrr en hann gerir upp við mig. Ég hef ekki sent honum rukkanir um hitt. Af því ætti hann sjálfur 25% og ég 25% eins og við öll systkinin.

Fólk segir að maður þekki ekki fólk fyrr en maður hefur jarðað nákominn með því. Í mínu tilfelli eru það orð að sönnu því að ég lét glepjast í ótrúlega mörg ár, ótrúlega segi og ég meina af því að ég er greind manneskja en fjölskyldukærleikurinn blindaði mig til ársins 2018 þegar hann felldi grímuna þannig að undir tók í mínum heimi. Sumir aðrir voru löngu búnir að sjá úr hverju hann er gerður.

Auðvitað veit ég hvað ég ætla að gera við peningana sem hann skuldar mér en það eru svikin, undirferlið, hótanirnar og ómerkilegheitin sem svíða mest og svo mitt eigið stjórnlausa dómgreindarleysi gagnvart albróður mínum, Gumma Steins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband