Gummi bróðir og meðvirknin

Auðvitað er leiðinlegt að segja sömu söguna of oft og ég hef alveg gengið í þá gildru þegar ég tala um Gumma bróður sem hefur gert sig líklegan til að stela af mér 7 milljónum á virði ársins 2008. En peningar eru bara peningar og svo er allt það sem hægt er að gera fyrir peningana. Ég get ímyndað mér marga betri staði fyrir mína peninga en lúxusferð hans með yngri dóttur sína til Balí að rækta hör. Mér finnst peningunum mínum heldur ekki vel varið í hugbreytandi efni sem telja honum trú um að hann sé bestur, klárastur og sætastur en líklega hefur hann verið á einhverju svoleiðis öll skiptin sem hann hefur talað eins og hann væri klárastur og sætastur. Nóg var af því hjali meðan ég umgekkst hann.

En, nei, það sem nístir hjarta mitt er að hann skyldi misbjóða mömmu okkar, særa hana og hafa ítrekað af henni peninga. Og að hann skyldi aðeins fjórum sinnum fara til pabba þegar hann var hjálparlítill á Hrafnistu og þá fyrst og fremst til að betla af honum peninga.

Ég talaði um þetta allt við fagmann í dag af því að ég get ekki fengið þetta út úr blóðrásinni hjá mér og það er alveg sama hvað ég undirbý mig vel, ég beygi alltaf af þegar ég tala um mömmu og pabba. Fagmaðurinn var með þá kenningu að ég væri haldin kvíða og ég er alveg til í að skoða þá kenningu þótt ég kvíði yfirleitt aldrei neinu heldur vaði í það sem ég tek mér fyrir hendur. Ég ofandaði samt fullt í sumar þegar ég var að reyna að skrifa MA-ritgerð og stundum finnst mér ég finna fyrir hjartsláttartruflunum.

Í næsta tíma hjá fagmanninum ætlum við að prófa EMDR og ég er mjög spennt að vita hvað kemur úr undirdjúpunum. Ég held samt að þegar ég losna við Gumma úr kerfinu, sem sagt þegar hann borgar mér, losni ég við mjög margt vont í mínu lífi.

Að lokum: Skilum meðvirkninni. Tölum um vondu hlutina en byrgjum þá ekki inni. Ég á ekki sökina hér þótt ég sé ekki algóð eða hafin yfir gagnrýni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband