Föstudagur, 2. október 2020
25. september 2021
Kosningabaráttan fyrir næstu alþingiskosningar hófst í gærkvöldi á stefnuræðu forsætisráðherra og umræðum um hana. Ég hef alltaf kosið þegar kosningar hafa verið í boði og aðeins einu sinni skilað auðu, í forsetakosningunum 1996 þegar aðeins pólitískir frambjóðendur voru í boði. Mér finnst nefnilega pólitíkin eiga heima á Alþingi.
Ég hef miklar skoðanir almennt og veit nokkuð hvað ég vil sjá í flokknum sem ég kýs. Ég vil jöfnuð í tækifærum en umbun til þeirra sem nýta þau vel og skara fram úr, ég vil að skatttekjur séu nýttar vel og að lykilstarfsfólk, fólk í mennta-, heilbrigðis-, samgöngu-, framleiðslu- og nýsköpunargreinunum, uppskeri vel. Ég vil að tíma fólks sé vel varið og liður í því er að stytta vinnuvikuna hressilega. Svo ég fari ofan í meiri smáatriði vil ég að við framleiðum eins og við getum á Íslandi, svo sem grænmeti og ávexti, en þá þarf að lækka rafmagnsverð til garðyrkjubænda. Þar með sparast kolefnisspor og gjaldeyrir.
Svo ég fari aftur í stóru myndina vil ég loks segja: Burt með spillingu, frændhygli og sóun.
Hvaða flokk á ég að kjósa? Ég ætla að fylgjast vel með í vetur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.