Laugardagur, 3. október 2020
Að vera í símanum
Egill Helgason spurði kl. 10.40 í gærmorgun (ég get ekki hlekkjað á færsluna eina) hvort það ætti að banna snjallsíma á Alþingi. Hann svarar svo spurningunni fyrir sína parta og margir eru sammála honum um að það sé virðingarleysi að vera í símanum á meðan aðrir þingmenn flytja ræður. Ég hef skoðun á þessu af því að ég á sjálf auðveldara með að einbeita mér þegar ég geri tvennt í einu, sem sagt að skrifa ef ég hlusta á eitthvað þótt ég heyri ekki allt, ganga milli hverfa meðan ég er í símanum og ég get alls ekki tekið til nema ég hlusti á eitthvað. Ef ég ætla að hlusta á Sprengisand, Silfrið eða Víglínuna og gera ekkert annað á meðan er öruggt að ég dett út.
Síðan er sjónarmiðið um að gera hlutina rétt og/eða að þeir líti rétt út og það skiptir líka máli. Ég myndi þess vegna aldrei, ALDREI, fletta í símanum meðan einhver talar yfir mér í raunheimum, ekki vegna þess að ég taki betur eftir heldur af virðingu við þann sem er að einbeita sér að því að tala við mig, og aðra eftir atvikum.
Tillagan um að banna símana á vinnustað finnst mér samt hlægileg og held að stór hluti af þeim sem svöruðu Agli í gærmorgun hafi einmitt verið að því í vinnutímanum. Auðvitað eiga allir rétt á neysluhléi en ég er ekki sannfærð um að allir sem tjá sig um aðra á þennan hátt hafi efni á því.
Kannski er rétt að bæta því hér við að ég hef óþarflega oft setið á fundum eða fyrirlestrum og horft á fólk sitja beint fyrir framan fyrirlesarann og skrolla í símanum án þess að um þingmenn sé að ræða þannig að gólið um óþekka krakka er órökrétt.
Það er líklega rétt að gera eina játningu. Ég hef gagnrýnt það á vinnustað hvað fólk sem vinnur við tölvu sé óagað og bregðist við miklu á Facebook og þá fæ ég svarið: 30-40% allra skrifstofumanna gera þetta. Þá spyr ég: Er ekki rétt að skoða þá heildarmyndina? Af hverju er fólk svona óagað? Er vinnan of leiðinleg? Er vinnan ekki nógu krefjandi? Er vinnudagurinn of langur? Eða er fólk bara svona óuppalið og virðingarlaust gagnvart vinnuveitanda og vinnutíma?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.