Samviskubitið

Ég hef nokkrum sinnum fjallað um Gumma bróður hérna. Hann er fjórum árum eldri en ég, drakk sig út úr grunnskóla, tolldi hvergi í vinnu og alls ekki í námi fyrr en hann kláraði garðyrkjuskólann fyrir tveimur árum og hreykti sér af því við mann sem ég þekki að hann hefði svindlað sér í gegnum hann með því að tilkynna sig veikan í prófum og taka svo prófin þegar hann var búinn að skoða þau hjá öðrum.

Ég lánaði honum iðulega peninga og það þótt hann híaði endalaust á mig fyrir að taka t.d. ekki námslán þegar ég var í háskólanum heldur vinna með námi. Hann híaði á mig fyrir að standa í skilum en sjálfur kom hann sér undan því að borga með dætrum sínum þegar hann skildi við mömmu þeirra. Saga hans er sennilega óslitin svika- og lygasaga en steininn tók úr hjá mér þegar ég asnaðist til að lána honum SJÖ MILLJÓNIR árið 2008. Ég hafði oft lánað honum peninga til að borga reikninga fyrir sjoppu sem hann átti og rak um tíma. Auðvitað endaði sá rekstur með því að hann missti hann úr höndunum á sér.

Ég er fyrir löngu búin að átta mig á að ég var meðvirk. Hann átti bágt og ég lánaði honum. Ég vissi líka að annars myndi hann biðja mömmu og pabba um lán og ég vildi hlífa þeim. Ég var að reyna að vera artarleg systir og dóttir. Og ég er það. Ég er traust manneskja og get verið það áfram þótt ég láti ekki misnota mig.

Ljósið sem rann upp fyrir mér í síðustu viku þegar ég sat og talaði öðru sinni við fagmann um málið var að ég er þjökuð af samviskubiti yfir að vera honum svo miklu fremri; vitsmunalega, fjárhagslega og félagslega. Hann byrjaði að drekka áfengi 11 ára, stal bíl og velti, var til vandræða í skólanum, hélt vöku fyrir mömmu viku eftir viku þegar hann var einhvers staðar úti á randi og svo hringdi lögreglan og bað mömmu að sækja hann. Þá vældi hann og var ósköp lítill. 

Þetta er veganestið mitt í æsku. Ég var hins vegar stillt og prúð, góður námsmaður, fór vel með peninga, algjör andstæða Gumma – og ég hef verið með samviskubit yfir því.

Ég er búin að glutra niður svolitlum tíma og kannski fæ ég aldrei skuldina greidda en ég skil betur hvað gerðist og get varað mig eftirleiðis. En Gummi hefur sannarlega aldrei spilað vel úr sínum spilum, sá dauðans aumingi sem hann var, er og verður. Ég er bara hætt að vorkenna honum því að hann hefur aldrei gert neitt til að bæta sig og ég get ekki borið ábyrgð á honum. Einhver hefði átt að taka eftir mynstrinu hjá mér og kippa í taumana en meðvirknin er víða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband