Miðvikudagur, 7. október 2020
Svínshöfuðið
Nú er ég búin að lesa Svínshöfuð og skil ekki alla hrifninguna sem ég hef lesið um. Væntingar skipta alltaf máli en mér finnst sagan detta of mikið í sundur. Ég skil að þau eru þrjú í fjölskyldunni með hvert sitt sjónarhornið en mér finnst það samt of sundurleitt.
Auðvitað fannst mér bókin fín, hún segir áhugaverða sögu þeirra sem þurfa að berjast við djöfla, vanmátt, uppgjöf, mistök, rangar ákvarðanir og ósigra og saga þess fólks heyrist oft ekki af því að yfirleitt er það sigurvegarinn sem segir söguna, sbr. mannkynssögubækur. Mér finnst hún bara ekki eins stórkostleg og má skilja á fólki.
Af Svínshöfði er t.d. gefin í byrjun allt, allt, allt önnur mynd en kemur síðan á daginn. Mér finnst eins og höfundur hafi ekki gert upp við sig fyrr en eftir nokkra tugi blaðsíðna hversu mikill tapari hann hafi átt að vera í lotteríi lífsins. Svo kemur öll hans harmþrungna barnæska sem endar í dapurlegri elli.
Sagan af Helenu er frekar einföld en sagan af stráknum nær sér aldeilis á strik eftir ákaflega hundleiðinlega byrjun. Þegar ég átti 30 blaðsíður eftir var ég næstum búin að gefast upp á bókinni en þá var öll marktæka raunasagan hans eftir. Og endirinn kom sannarlega á óvart.
Kannski yfirsést mér eitthvað í bókinni og kannski sæi ég eitthvað markvert við annan lestur en það aláhugaverðasta finnst mér vera það kastljós sem fólkið fær sem er vant að standa utan kastljóssins. Sögupersónurnar eru yfirleitt bara aukapersónur í annarra manna sögum og það var vel gert í Svínshöfði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.