Föstudagur, 9. október 2020
*Landhelgigæslan
Flestir málfræðingar sem ég þekki eru umburðarlyndari gagnvart alls konar í tungumálinu en þeir sem eru ekki málfræðingar. Margir þeirra sem lyfta fingrum hvað óðast til að benda og gagnrýna orðfæri kunna ekki viðurkenndan málstaðal, þekkja ekki fjölbreytileikann og virða ekki hefðina heldur halla sér að einhverju sem þeir halda að sér rétt. Og hvað er rétt? Það sem fólk hefur alist upp við og því er tamt er ekki vitlaust, það er bara ekki í samræmi við almennan málstaðal. Hvenær verður orðið rétt að segja: *mig hlakkar? Það getur orðið áður en ég verð öll, rétt eins og einu sinni var rétt að segja læknirar í nf. ft. en nú er rétt skv. málstaðli að segja læknar.
Ég hef oft heyrt fólk segja af mikilli vandvirkni athyglivert, sjálfsagt af því að athygli er kvenkyns og tekur ekki eignarfalls-s nema við þessa tengingu. Skyldi það fólk líka tala um *Landhelgigæsluna?
Sýnum umburðarlyndi. Vöndum okkur sjálf en dæmum ekki. Ef við fettum of mikið fingur út í meintar málvillur missum við yngstu kynslóðina úr íslenskri málnotkun af nokkurri tegund og yfir í það sem henni finnst einfaldara, enskuna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.