Þriðjudagur, 13. október 2020
Ný stjórnarskrá
Ég er þakklát fyrir fjölmiðla. Ég man að fyrir mörgum árum, ég get nefnt árið 2008, talaði fólk um að fjölmiðlar segðu svo lítið og að bloggið segði meira. Þá voru vissulega öflugir og víðlesnir bloggarar sem stungu á kýlum og sögðu það sem stofnanir gátu ekki leyft sér með góðu móti af því að það vantaði herslumuninn í heimildum.
Núna volgnar sem sagt í mér hjartað þegar ég les á RÚV, Vísi og Mbl um þöggunartilburði einhverra þegar stór hópur langþreyttra biður um efnislega umræðu um ákvæði í nýrri stjórnarskrá. Ég sé komment frá nokkrum sem tala um að nýja stjórnarskráin sé ekki stjórnarskrá heldur drög að stjórnarskrá. Já, þau hafa ekki verið samþykkt og þau eru ekki fullkomin frá mínum bæjardyrum séð en þau eru útgangspunktur. Ég vil að fiskurinn í sjónum sé ekki séreign neins heldur sameign þjóðarinnar, ég vil líka að jöklarnir, fjöllin og jarðhitinn séu sameign, ég vil persónukjör, ég vil jafnt vægi atkvæða og ég vil aðskilnað ríkis og kirkju. En ég sætti mig við að fá ekki allt og fyrst og fremst vil ég málefnalega og heiðarlega umræðu þar sem hagsmunaaðilar sleppa takinu af meintri séreign sinni.
Hvar er nýja stjórnarskráin? vísar í mínum huga í nýja stjórnarskrá, ekki endilega drögin óbreytt. Forsætisráðherra segist vilja fá efnisumræðu um málið. Hvað er þá í veginum?
Athugasemdir
Fiskurinn í sjónum hefur aldrei verið og verður aldrei séreign neins og heldur ekki sameign þjóðarinnar hvað sem sett er í lög eða stjórnarskrá. Það er eins hægt að eigna sér vindinn og skýin. Veiðiréttindin er hægt að setja í lög og stjórnarskrá. En það getur ekki verið um neinn alvöru eignarrétt að ræða á fiskinum ef eignarréttur hverfur þegar fiskurinn syndir yfir einhverja línu, engin eign erfist, eignin er hvergi gefin upp eða skráð og eignarréttur tapast við að flytja í annað land. Og jafnvel eigendurnir eru ekki vel afmarkaður hópur heldur einhver huglæg ímynd sem hvergi á sér skilgreiningu í lögum. Ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar á fiskinum í sjónum er gott dæmi um merkingarlaust bull sem lætur vel í eyrum.
Jöklana, fjöllin og jarðhitan getur ríkið eignað sér, jarðir, ár, vötn og hraun sömuleiðis, hús, bíla, flugvélar og bankainnistæður. Þá þarf bara að ganga á eignarrétt þeirra sem það eiga. Sem ætti að vera lítið mál fyrir fólk sem ber enga virðingu fyrir eignarrétti annarra. Setjum bara ekkert eignarréttarákvæði í stjórnarskrána og þjóðnýtum allt sem einhvers er virði.
Persónukjör er frábært. Það verður gaman að sjá kjörseðil með nokkur hundruð nöfnum, sem fæst eru flestum kunn, til að velja úr. Eftir sem áður verður samt mikið sama fólk stóru flokkana sem sest á þing, litlu flokkarnir missa fólk og jafnt vægi atkvæða tryggir að á Alþingi verður ekkert um landsbyggðarpakkið sem fáir á höfuðborgarsvæðinu þekkja og konunum sem settar voru ofarlega á lista til að jafna hlutföll fækkar.
Aðskilnaður ríkis og kirkju er eitthvað sem skiptir eiginlega engu máli. Það sem verið væri að aðskilja væri einhverskonar lögbundinn móralskur stuðningur lýðveldisins við hina evangelísku lútersku kirkju. Sennilega væru stærstu breytingarnar að foreldrar þyrftu að skrá nýfædd börn í trúfélag, sjálfvirk skráning í þjóðkirkjuna mundi hætta og að biskup mundi ekki taka þátt í setningu hvers þings og messan á undan gæti fallið af dagskrá. Fjárhagslega mundi lítið breytast því þar er um viðskiptasamning að ræða.
Vagn (IP-tala skráð) 14.10.2020 kl. 00:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.