#ÉgerArnarHilmarsson

Ég saup hveljur þegar ég horfði á viðtalið við Arnar Hilmarsson í gærkvöldi, 21 árs skipverja á frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni. Hann var yfirvegaður og vel máli farinn og ég trúi honum. Ef hann færi með fleipur væri ábyggilega bæði auðvelt að hrekja það, t.d. með því að mennirnir væru ekki með Covid, og væri búið að hrekja það. En þvert á móti er núna framkvæmdastjórinn leiður yfir að aðstæður hafi verið vanmetnar.

Arnar Hilmarsson fór því ekki með fleipur.

En það sem mér finnst samt ekki síður sláandi er þöggunin í samfélaginu og hvað okkur finnst hún sjálfsögð. Fréttamaður spyr hvort hann óttist ekki um plássið sitt.

Tjáning mín á málinu er óendanlega verðmætari en starf mitt.

Hann er ungur og óhræddur og ef samfélagið er ekki gegnrotið eru honum allir vegir færir. Hann er greinilega vel gefinn og ég ætla að hann sé stútfullur af réttlætiskennd. Ég vildi óska að fleiri hefðu þennan kjark því að sjálf er ég litla músin sem tekur ekki slaginn. Ríkir tjáningarfrelsi í raun?

Framkvæmdastjórinn er núna voða leiður en hann hafði þrjár vikur til að láta verkin tala. Og greinilega hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Gunnvör fékk verðlaun TM fyrir að sinna forvörnum og öryggismálum. Það var 2012. Mér ofbýður.

Til að kóróna maðkinn í mysunni virðast síðan Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi hafa lagt framkvæmdastjóranum til afsökunarbeiðnina. Þarna á milli er greinilega enginn eldveggur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband