Hugarheimur skipstjórans

Ég ákvað að reyna að setja mig í spor skipstjórans á Júlíusi Geirmundssyni. Auðvitað er hann til frásagnar og mun segja einhverjum í rannsókninni hvað hann var að hugsa en það er alls óvíst að ég fái að sjá það.

Ég var einu sinni leiðsögumaður og fór með hópa á jökul. Það var aldrei mín ákvörðun hvort ætti að fara eða ekki og ég lenti heldur aldrei í neinum reginvillum eða hættuástandi. En ég ætlaði að reyna að komast inn í heilabúið á manni sem ber ábyrgð á 25 manns á fjarlægum slóðum. Ef ég hefði verið með 25 manns á jökli eða annars staðar úr leið og einn farþegi hefði meitt sig á fingri hefði ég kannski boðið plástur og eftir atvikum verkjalyf. Ef hann hefði stigið ofan í gjótu og snúið sig hefði ég kannski spurt: Geturðu gengið? Ef hann gæti alls ekki gengið væri mér vandi á höndum. Það væri leiðinlegt ástand af því að hinir 24 væru kannski í fínu formi og vildu halda ferðinni áfram.

Ég lenti aldrei í neinu svona og þurfti aldrei að hringja út þyrlu en get alveg ímyndað mér að það sé erfið staða. Ef 22 af 25 farþegum hefðu á hálfum mánuði verið búnir að stíga í gjótuna eða brenna sig eða missa móðinn, einhver blanda af ýmsu, hefði ég verið löngu búin að finna spegil til að horfa í augun á mér og spyrja hvað gengi að mér.

Ég vil alltaf leyfa fólki að njóta vafans og nú bíð ég spennt eftir að heyra nothæfar skýringar vegna þess að ég get alls ekki látið mér detta neitt annað í hug en kjarkleysi. Það kostar pening að snúa skipi við og það kostar pening að hringja út þyrlu eða sjúkrabíl. Það kostar augljóslega kjark að taka réttar ákvarðanir og hlífa mannslífum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband