Ef persónukjör ...

Ég er komin með efasemdir um persónukjör. Ég hef verið höll undir það af því að ég myndi vilja velja fólk af ýmsum framboðslistum en nú er ég sem sagt komin með bakþanka. Ég held auðvitað að ég myndi velja vandað og gott fólk sem væri staðráðið í að vinna fyrir þjóðina ... svona eins og Benedikt Ríkarðsson ... en þótt ég myndi vanda mig í alvöru eru aðrir kjósendur sem væru vísir með að skemma fyrir mér með því að velja áberandi áhrifavalda, sjónvarpsstjörnur sem vinna við að villa á sér heimildir og þá sem læra frá blautu barnsbeini að vaða yfir aðra, já, Trumpa þessa heims.

Ég væri alveg til í að vinna svona samfélagsstarf, að vera á þingi eða í borgarstjórn, en ég held að það þurfi mjög sterk bein, hrikalega réttlætiskennd, bjargfasta sannfæringu og mikla þekkingu á mörgum málaflokkum til að láta hvergi og aldrei glepjast til að skara eld að eigin köku. Ég þekki gott fólk í pólitík sem er einmitt svona en mér segir svo hugur að hitt fólkið sé líka í áhrifastöðum.

Viljum við ofbeldi? Viljum við fórna umhverfinu? Viljum við menga? Viljum við mismuna? Viljum við halla réttu máli?

Enginn með fullu viti segir já við þessum spurningum en samt býr fólk við ofbeldi, loftslagsvá, mismunun og ranglæti. Af hverju ætli það sé? Ég held að það sé af því að mannskepnan er ístöðulaus og velur mjög oft auðveldu leiðina sem er ósjaldan sú að snúa blinda auganu að vandanum og þykjast ekki sjá hann. Rétta leiðin er of tímafrek og fyrirhafnarmikil.

Nú er orðið víst að Joe Biden verður næsti forseti Bandaríkjanna og ég hrósa happi eins og stór hluti samborgara minna en samt er ég ekki viss um að hann sé góður kostur. Hann hefði fengið óánægjuatkvæði mitt ef ég hefði mátt kjósa, rétt eins og ég var kosin formaður Félags leiðsögumanna á fyrsta fundinum mínum í því félagi af því að fólk vildi alls ekki hinn frambjóðandann. Ég stóð mig ekkert illa árið sem ég gegndi starfinu og ég vandaði mig sannarlega við að gera félaginu gagn en ég hefði getað gert miklu betur. Ég þurfti því miður að eyða ómældum tíma í að berjast við drauginn sem ég vann í kjörinu af því að hann gerði allt til að skemma fyrir mér. Og hann kom úr stjórnmálum þótt hann væri svo sem hvergi kjörinn.

Ég er alveg með hjartað í brókunum yfir næstu vikum. Hvað getur Trump valdið miklum skaða til 20. janúar? Af hverju getur stærsta lýðræðisríki heims ekki haft hemil á úrillum kalli? Hvernig er stjórnsýslan ef hægt er að handvelja félaga sína í Hæstarétt?

Jæja, þessi helgi var algjör rússibani og ég er kát með að hún skuli næstum vera um garð gengin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband