Meðvirkni eða greiðvikni

Við vitum að greiðvikni og meðvirkni eru tvær hliðar á sama peningnum. Í fyrra mætti ég á Al anon fund, fund fyrir fullorðna aðstandendur alkóhólista, til að ræða um Gumma bróður. Hann hætti að drekka fyrir 30-40 árum en er enn sami fíkillinn og þyrfti alvöruaðstoð fagmanna en ekki það uppklapp narsissistans sem ég held að bjóðist hjá AA. En ég fór sem sagt á fund hjá Al anon, sagði fátt en hlustaði meira. Kona (ég veit um nafnleyndina en ég hlýt að mega segja almenna frásögn konu sem ég man hvort eð er engin deili á) sagðist vera tvístígandi gagnvart syni sínum sem drykki mikinn bjór og héldi til í kjallaranum heima hjá þeim hjónum. Hún spurði: Hvenær er ég bara greiðvikin og hvenær er ég orðin meðvirk?

Ég var greiðvikin við Gumma bróður minn og lánaði honum peninga þegar hann var í fyrirtækjarekstri til að spara honum bankakostnað. Auðvitað var hann lélegur í rekstrinum en ég var samt greiðvikin. Á endanum var ég búin að lána honum 7 milljónir af því að ég hef alltaf farið vel með og var akkúrat þarna, 2008-2009, nýbúin að selja íbúð og ekki búin að kaupa nýja. Stærsti hluti lánsins átti að vera algjört formsatriði, handveð sem aldrei yrði gengið að. En síðan var gengið að því og hann yppti bara öxlum og sagði að þetta væri ekki sér að kenna frekar en hrunið ...

Og vitið þið hvað? Ég hélt áfram að vera umburðarlynd og greiðvikin og féllst á að hann myndi endurgreiða mér þegar hann gæti. Nú er hann búinn að geta það í tvö ár en hann lætur ekki ná í sig, svarar engum skilaboðum, ræður sér lögfræðing og gefur skít í mig og hin systkini okkar tvö.

Ég vil áfram vera greiðvikin og bóngóð manneskja en svona fólk sem misnotar nána ættingja sína - og guð má vita hverja aðra - skemmir samfélagið svo mikið. Ég er auðvitað orðin miklu varari um mig og því miður kemur þetta algjörlega niður á dætrum hans tveimur og einum dóttursyni.

Ég hef oft bloggað um hann hérna (en lítið á Facebook þar sem vinir mínir halda til) af því að ég vona alltaf að einhverjir sem gætu lent í klónum á honum slæðist hér inn. 

Ég ætla ekki að sitja ein uppi með skömmina af því að hafa látið albróður minn blekkja mig svona lengi. Ég skammast mín sannarlega fyrir dómgreindarleysið en ég er búin að læra lexíu með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn.

Svei honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband