Mótlæti og úthald

Ég hef forðast fullt af fólki og allar hópamyndanir í 10 mánuði. Fyrir mig er það ekkert brjálað mótlæti í stuttan tíma þar sem ég hef fengið ríflegan skammt af félagsskap í gegnum tíðina. Það reynir samt á og kostar staðfestu. Ég hef á þessum tíma mest vorkennt framhaldsskólanemum á lokaári og nýnemum í háskóla sem fara á mis við myndun tengslanets og ævilangrar vináttu og ég hef líka fundið til með fólki sem hefur ekki mátt mæta í vinnuna, orðið fyrir tekjutapi en útgjöldin ekki dregist saman.

Ég finn til með og dáist að fólki sem hefur staðið í framlínunni og hlaupið hraðar en ætti að vera hægt til að vinna bug á sameiginlega óvininum.

Ég finn mikið til með fólki sem er einangrað heima hjá sér, fullorðnu fólki á hjúkrunarheimilum sem sumt hvert skilur ekki af hverju ættingjarnir koma ekki nema í mýflugumynd. Ég á 95 ára föðursystur sem leiðist alla daga og ég fór til reglulega til að stytta stundir en má ekki hitta núna.

Saga mín er saga margra. Ég trúi á sóttvarnirnar og trúi því að veiran sé bráðsmitandi. Heldur einhver að frásagnir af dauðsföllum 1918 þegar spænska veikin geisaði séu lygasögur?

Ég skil ekki af hverju fólk í fullu fjöri sem býr með öðru fólki í fullu fjöri en má mæta á vinnustað, borða góðan mat, lesa, fara út að ganga og hlaupa og mátti ferðast býsnin öll um Ísland í sumar getur ekki sleppt því að koma við í góðu hófi á heimleið. 

Eina skiljanlega ástæðan væri ef viðkomandi tryði á engan hátt á gildi þess að fækka smitleiðum. Er það málið? Þá ætti viðkomandi nefnilega ekki að vera í framvarðarsveit þeirra sem brýna smitvarnir fyrir okkur sem viljum hlúa að okkar viðkvæmustu hópum.

Ég er ekki uppreisnarseggur. Ég leyfi fólki að njóta vafans. Ég vil að fólk fái tækifæri til að svara fyrir gjörðir sínar. Ég mun áfram fara varlega en ég óttast að margir muni á næstu vikum hópast saman og segja: 

hvað höfðingjarnir hafast að
hinir meina sér leyfist það

eins og Hallgrímur Pétursson orti. Allt 10. erindi 21. Passíusálms hljóðar svo:

Yfirmönnunum er því vant,
undirsátarnir hnýsa grannt
eftir því sem fyrir augun ber;
auðnæmast þó hið vonda er.
Hvað höfðingjarnir hafast að,
hinir meina sér leyfist það.

Fyrir mág minn, föðursystur mína og allt heilbrigðisstarfsfólkið ætla ég að hafa mig hæga þangað til við erum komin fyrir vind.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo mikið sammála.

Guðrún Sigríður (IP-tala skráð) 25.12.2020 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband