Þriðjudagur, 29. desember 2020
Eldum björn eftir Mikael Niemi
Feiti hreppstjórinn, fróði presturinn, pervisni unglingurinn, fjarlæga systirin og allar aukapersónurnar. Dýrleg bók. Dýrsleg bók. Sagan gerist fyrir næstum 200 árum en mennskan - eða ómennskan - er söm við sig. Valdsmenn slá um sig, smælingjarnir taka skellinn.
Mig langar ekki að rekja söguþráðinn en vil segja að sagan er nokkuð þunglyndisleg og myrk, full af fátækt og eymd en jafnframt fróðleiksþorsta og sanngirni. Ég á bágt með að skilja að svona aumt hafi lífið verið nokkurn tímann hjá nokkrum manni en ég óttast að svo hafi samt verið og sé sums staðar enn, að undanskilinni upplýsingunni. Þótt rangar upplýsingar og fréttafals rati út á internetið er þar líka að finna svo mikið gagnlegt að stóru hóparnir láta ekki lengur kúga sig til hlýðni og undirgefni í sama mæli. Og bókin er einmitt öðrum þræði um viljann til að verja fjármunum sínum í upplýsingar frekar en skammvinna gleymsku ofdrykkjunnar.
Bókin er 450 blaðsíður og komst almennilega á skrið eftir svona þriðjunginn. Á köflum langaði mig sannarlega ekki að halda áfram en er fegin að ég gafst ekki upp.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.