Sunnudagur, 3. janúar 2021
DNA (erfðaefni) - aðgengilegt til 16.1.2021 í spilara RÚV
Ég hámhorfði á dönsku þáttaröðina DNA í spilara RÚV um helgina (8x40 mínútur). Efnið er auðvitað skáldað og ég skil það ekki sem heilagan sannleika en (ég spilli engu fyrir væntanlegum áhorfendum) spilling í dönsku lögreglunni og yfirgangur í kaþólsku kirkjunni hljómar ekkert ósennilega, ekki frekar en spilling innan lögreglu og yfirgangur kirkjunnar þjóna yfirleitt. Ég alhæfi ekki, ég segi bara að ég trúi því miður á skemmd epli í starfsemi sem að mörgu leyti er samt góð.
Ég mæli eindregið með þáttunum ef fólk hefur, eins og ég, smekk fyrir dönsku (svo sem evrópsku) spennuefni sem stingur á kýlum. Pólska og franska eru líka talaðar í þáttunum og þá þurfti ég alfarið að treysta á textann.
Svo er auðvitað kostur að geta horft í 5-6 tíma eftir hentugleikum og tekið sér matarhlé þar sem manni sýnist.
Það voru smáatriði eins og endalausar ósýnilegar ferðir milli Kaupmannahafnar og Parísar á núll einni og að nýborin móðir sé stökkvandi yfir girðingar sem gengu ekki upp en mér fannst mjög auðvelt að horfa framhjá því.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.