Miðvikudagur, 13. janúar 2021
13. janúar
Í dag er minn persónulegi blúsdagur sem ég vil nota í að minnast minnar uppátækjasömu mömmu. Hún var fædd 1927 í sveit, flutti til Reykjavíkur, lærði til kennara og kynntist svo pabba. Barnagæsla var það takmörkuð þegar fyrsta barnið fæddist, 1950, að hún varð að hætta að kenna og var heimavinnandi þangað til ég var orðin sjálfbjarga. Hún var aldrei nein sérstök barnagæla, beið frekar spennt eftir að geta átt við okkur vitsmunalegar samræður.
Hún átti einstakar minningar úr kennslu en fór aldrei aftur í það starf heldur vann í bókabúðum og við afgreiðslu á verkstæðinu hjá Velti þegar hægt var að skilja mig eftir heima án pössunar. Meðfram húsmóðurstarfinu og uppeldi á fjórum börnum var hún svo símsvari Rafvirkjaþjónustunnar sem pabbi rak og fór með honum að draga í rafmagn þegar svo bar undir.
Hún var svo innilega til í að sprengja þægindarammann eins og hún gerði t.d. þegar hún kom í heimsókn til mín í Þýskalandi 1987 þegar ég var þar au-pair. Hún lærði tungumál aldrei vel en kom til mín í gegnum nokkra flugvelli og þegar við fórum þaðan saman í rútuferðalag til Garda-vatns talaði hún meira við fararstjórann en nokkur annar. Hann var samt þýskur og bílstjórinn líka en það truflaði hana ekkert að ráði.
Myndina sem ég legg hér með færslunni tók ég 2017, hálfu ári áður en hún dó. Þá var hún nýbúin að prjóna nokkra svona pottaleppa (þetta eru kindur!) og gaf mér þá með þessum svip. Hún var alveg ófeimin við að grallarast þótt hún væri orðin 89 ára.
Við rifumst stundum hástöfum, aðallega um loftslagsmál, bílaeign og einstaka stjórnmálamenn en við jöfnuðum þann ágreining. Ef frá eru taldir nokkrir mánuðir þegar ég var 17 ára uppreisnarseggur bar engan skugga á vináttu okkar.
Hún dó 13. janúar 2018, vitsmunalega í fullu fjöri og fór alltof snemma frá mér sem er yngsta barn, en við áttum innilega kveðjustund í heila viku á Landspítalanum þar sem ég gat komið, farið og verið eins og ég vildi.
Ég veit ekki hvernig henni hefði reitt af þessi þrjú ár þar sem hún átti orðið svo erfitt með að nærast vegna slæmsku í hálsi en ég er 100% á því að hún væri enn flissandi yfir ýmsu og opin fyrir alls kyns sprelli.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.