Skatturinn rukkar einstakling um þing- og sveitarsjóðsgjöld

Ég fæ ekki lengur fastar launatekjur þar sem ég sagði starfi mínu lausu í fyrra og fór í skóla. Þar af leiðandi eru ekki dregin sjálfkrafa af mér viss gjöld.

Í kvöld, já, í kvöld, fékk ég tölvupóst frá Skattinum um að ég skuldaði þing- og sveitarsjóðsgjöld og áskorun um að borga. Þegar eru fallnir dráttarvextir á skuldina, ef hún er skuld, vegna þess að gjalddagi var í desember og eindagi í byrjun janúar. Í bréfinu kom fram að almenn greiðsluáskorun/auglýsing hefði verið birt í dagblöðum 16. janúar.

Það er ekki ofsögum sagt af flækjustigi Skattsins. Ég var með verktakatekjur á síðasta ári og hef gert ráð fyrir að borga skatt af þeim eftir á en ég hefði alltaf reiknað með að fá rukkun fyrir gjalddaga og löngu fyrir eindaga. Og vitið þið hvað? Manni er bent á að hafa samband „við viðeigandi umsjónarmann til að fá frekari upplýsingar um stöðu og innheimtu“ en hvorki gefið upp nafn né símanúmer, hvað þá netfang.

Ástæðan fyrir því að það sýður strax á mér er sú að ég átti að fá endurgreiðslu vegna viðgerðar á bíl í fyrra og þegar hún skilaði sér kom peningurinn hvergi fram. Ég sendi kurteislegt bréf og spurði um hana. Eftir dúk og disk fékk ég (að mínu mati hranalegt) bréf um að ég skyldi hringja í númerið sem var gefið upp. Ég gerði það og talaði við þrjár - ÞRJÁR - reyndar mjög almennilegar manneskjur og loks fékkst fram í dagsljósið að greiðslan hafði farið inn á reikning í banka sem ég lít næstum aldrei inn í. Ég hafði gefið upp allt annan bankareikning en þessi hafði einhvern tímann verið færður inn í kerfið hjá Skattinum. 

Ég er alveg borgunarmaður fyrir þessari skuld en ég veit ekki fyrir hvað er verið að rukka mig af því að skýringin er eingöngu þing- og sveitarsjóðsgjöld. Getur einhver venjulegur launþegi sagt mér hvað það er? Mér finnst ég venjulegur launþegi þótt ég hafi verið með 500.000 kr. í verktakagreiðslur á síðasta ári.

Og ég get líka sagt ykkur að dráttarvextirnir eru ekki neitt nálægt 0,05% sem eru venjulegir innlánsvextir á lausu fé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband