Skatturinn - þjónusta? (2)

Í gærkvöldi fékk ég „hnipp“ frá Skattinum sem ég bjóst ekki við en þegar það kom hélt ég að hann væri að láta mig vita af endurgreiðslu vegna viðgerða á bíl. En, nei, þetta var út af svokölluðum þing- og sveitarsjóðsgjöldum. Heildarskuldin (sem er ekkert brjálæðislega há) er sundurliðuð sem ... AB Þing- og sveitarsjóðsgjöld frá árinu 2020. Ég var engu nær fyrr en ég gúglaði. Þá fékk ég:

Hjá launþegum eru þing- og sveitarsjóðsgjöld (AB) innheimt með launaafdrætti. Aðrir fá sendan greiðsluseðil á gjalddögum.

...

Undir þing- og sveitarsjóðsgjöld (AB) falla ýmsir skattar og gjöld, t.d. tekjuskattur, útsvar, gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, fjármagnstekjuskattur, slysatrygging við heimilisstörf, útvarpsgjald, auðlegðarskattur, búnaðargjald, ofgreiddar barnabætur og ofgreiddar vaxtabætur.

Aa, aðrir fá sendan greiðsluseðil á gjalddögum, stendur á síðu RSK. En ég fékk engan greiðsluseðil, enga tilkynningu, ekkert „hnipp“ fyrr en búið er að kalla eftir greiðslu í blöðunum!

Ég sendi Skattinum fyrirspurn í gærkvöldi og fékk staðlað svar til baka:

Erindi þitt hefur verið móttekið og mun verða tekin afstaða til þess svo fljótt sem kostur er. Vegna mikils álags getur dregist að svara fyrirspurn þinni. Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda. Vinsamlega sendið ekki sama póstinn oftar en einu sinni.

Svo reyndi ég að hringja kl. 9 í morgun og eftir 12 mínútur hafði ég ekki lengur tíma til að hlusta á símsvarann. Ég tek fram að ég hlustaði á símsvara Skattsins í mínum tíma, ekki tíma neins vinnuveitanda.

Ég er með óskilgreinda kröfu frá Skattinum um greiðslu fyrir eitthvað sem ég veit ekki hvað er og Skatturinn hefur engan tíma til að upplýsa mig. Meðan ég borga ekki safnast væntanlega dráttarvextir og eins og ég sagði í gær eru þeir ekki á pari við innlánsvexti venjulegs sparifjáreiganda.

Þrátt fyrir beiðni Skattsins um að senda ekki sama póstinn oftar en einu sinni sendi ég ítrekun með beiðni um svör við þessum tveimur spurningum:

  1. Fyrir hvað er verið að rukka mig?
  2. Ef ég skulda þetta, af hverju fékk ég ekki rukkun áður en gjalddaginn rann upp?

Svo lét ég vita að ég kæmist ekki í heimsókn fyrr en á mánudaginn og ef ekkert gerist í millitíðinni er ég búin að ákveða að helga Laugavegi 166 drjúgan part mánudagsins. Tek aftur fram að þar verð ég í mínum tíma en ekki tíma neins vinnuveitanda.

Eru þessi vinnubrögð ekki annars stór ástæða fyrir því að fólk skreppur svo mikið úr vinnunni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband