Lífið með moltutunnu

Ég vildi að ég gæti flokkað allt sem ég hendi. Ég vildi að ég gæti hent meiru en ég geri. Ástæðan fyrir því að ég hendi minna en ég vildi er tvenns konar. Ég er ekki viss um að það nýtist öðrum, t.d. Rauða krossinum eða umhverfinu. Hin ástæðan er að ég er tilfinningalega tengd því sem ég veit að ég mun samt á endanum þurfa að farga. Ég er með stafla frá mömmu og pabba sem koma út á mér tárunum; bréf, myndir, föt og persónulega muni.

Í haust fékk ég mér moltutunnu í eldhúsið, bokashi. Ég er enn ekki komin með neina nothæfa mold en það styttist í það. Mér líður betur með að henda lífrænu ofan í hana, svo sem kaffikorgi, eplakjörnum, eggjaskurn og bananahýði. Svo er hægt að flokka pappír og plast þótt það sé ekki alltaf nógu einfalt. Í gær heyrði ég t.d. að á kassastrimlum í búðunum væri eitur, þá í prentinu. Ég hef einmitt huggað mig við það að strimillinn sem Bónus prentar handa mér í hverri búðarferð fer þó í pappírstunnuna en nú veit ég ekki hvað ég á að halda.

En svo verð ég að hrósa Reykjavíkurborg hástöfum. Um síðustu helgi sendi ég, eftir óformlegan húsfund, beiðni um að önnur gráa tunnan við húsið yrði tekin. Eldsnemma á mánudagsmorgni fékk ég svar um að það yrði gert við fyrstu hentugleika og á þriðjudegi var hún farin. 

En mikið vill meira, nú ætla ég að reyna að galdra til okkar tunnu fyrir lífrænan úrgang í stað þessarar gráu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband