Miðvikudagur, 10. febrúar 2021
Það sem allir vilja verða en enginn vera
Við viljum flest verða gömul en ekki endilega vera gömul. Þessi speki rifjaðist upp fyrir mér vegna skólagöngu minnar. Ég þarf að opna vælugluggann. Ég er að læra til blaðamanns og það er óborganlega skemmtilegt - en svo er eitt lítilræði sem ég vil bara kunna en helst ekki læra. Ég á að taka sjónvarpsviðtal og hlakka bara til þess en svo þarf ég að hlaða því inn í tölvu (myndefninu) og klippa það með forriti sem heitir Final Cut. Kennaranum finnst það svo einfalt að hann getur ekki útskýrt það fyrir manneskju sem hefur aldrei notað makka.
Það er ekki óalgengt umkvörtunarefni að kennarar geti ekki komið því til skila sem þeim finnst svo auðskilið sjálfum.
Ef hann ætlaði að útskýra fyrir mér - eða ég fyrir honum - leyndardóminn um kennimyndir sagna væri ég á grænni grein - en hann ekki - þannig að ég ætla ekki að fórna hér höndum yfir því hvað ég sé vitlaus. Ég þarf bara að segja þetta einu sinni upphátt. Þegar ég verð búin að læra þetta með að importa í libraryið og transporta í galleríið og nota svo einhverja effekta til að fletta viðmælandanum á samskeytunum horfi ég til 10. febrúar 2021 í forundran en akkúrat núna langar mig að ... lemja teppið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.