Útskrift frá Háskóla Íslands

Ég útskrifaðist ekki í gær frá Háskóla Íslanda vegna þess að mér tókst ekki að klára ritgerð mína í þýðingafræði í tíma. Hins vegar er ég núna líka í öðru námi við HÍ, blaða- og fréttamennsku, og ákvað að gera sjónvarpsfrétt um þennan tímamótadag. Þetta er nefnilega í fyrsta skipti sem nemendum er hleypt inn í Háskólabíó einum í einu til að sækja prófskírteinin sín og fá myndatöku, allt vegna sóttvarna.

Ég talaði við einn sem undirbjó daginn og svo þrjú sem voru að útskrifast og ég vona eiginlega að brautskráningarhátíðin verði eitthvað þessu lík framvegis. Hugsanlega væri hægt að eyrnamerkja einn klukkutíma í senn brautskráningarviðburði fyrir hvert svið. Ég hef þrisvar útskrifast frá HÍ, fyrst 1994, og hef aldrei mætt í brautskráningu vegna þess að mig langaði ekki að sitja í allt að fjóra tíma undir því að öllum útskriftarnemendum væru afhent prófskírteini sín. Hins vegar hefði ég ekki viljað missa af útskriftardeginum í menntaskóla vegna þess að það gerir maður bara einu sinni.

Svo heyrði ég nýlega að þótt útskriftarnemendur væru beðnir um að sitja sem fastast þangað til viðburðurinn væri búinn færu margir þeirra meðan kórinn væri að syngja og/eða settust ekki aftur þegar þeir væru búnir að sækja skírteinin sín upp á svið. Hvar er hátíðleikinn þá, spyr ég, ef mikil hreyfing er á salnum á meðan þeir síðustu sækja skírteinin?

Meðfylgjandi smáfrétt sem ég setti á YouTube í gær gerði ég 97% sjálf og þótt sitthvað megi laga jaðrar við kraftaverk að ég hafi gert hana næstum ein. Fyrir rúmri viku hélt ég að ég gæti ekki einu sinni stillt myndavélina á zebra og gula fókusinn, hvað þá stillt mér sjálf upp fyrir framan myndavélina og klippt svo allt aukaefni í burtu, lagt myndefni yfir talað mál, skrifað inn nöfn viðmælenda og búið til kreditlista, en þetta gerði ég samt í gær í Final Cut forritinu í Apple-tölvu í skólanum. 

Háskóli Íslands er akkeri og mikið óskaplega er ég þakklát fyrir að vera á dögum núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott hjá þér! Þú ert líklega tæknilegri en þú vissir.

Svo fannst mér skemmtilegt að heyra hvað þú líkist mömmu þinni.

Ég hef verið við nokkrar hefðbundnar háskólabrautskráningar og fannst þær hátíðlegar, man ekki til þess að hafa setið marga klukkutíma, líklega verið búið að endurskipuleggja athöfnina. Ég tók heldur ekki eftir að fólk væri að yfirgefa salinn, örugglega hafa einhverjir gert það en ekki áberandi. 

Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 21.2.2021 kl. 10:32

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Gott að það hafi ekki verið áberandi. Ég hef ekki horft upp á það sjálf, enda aldrei mætt, en það mætti segja mér að það hafi ágerst upp á síðkastið.

Berglind Steinsdóttir, 21.2.2021 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband