Föstudagur, 26. febrúar 2021
Skatturinn og dráttarvextirnir hans
Fyrir mánuði fékk ég hnipp frá Skattinum um að ég skuldaði honum peninga og hann lét að því liggja að þetta væri ítrekun. Upphófust þá miklar skriftir, leitir og útskýringar með tveimur starfsmönnum Skattsins. Skuldin og skýringin fannst en Skatturinn gekkst við því að hann hefði ekki innheimt hana eins og hann átti að gera og ég sagðist ekki tilbúin að borga hámarksdráttarvexti heldur lagði til að ég borgaði venjulega innlánsvexti, gróðann sem ég hafði af því að draga greiðsluna.
Þá heyrði ég ekkert meir og hugsaði að þau hefðu séð sóma sinn í að fella skuldina niður. Ég er óheyrilega skilvís manneskja og borga alltaf það sem mér ber á réttum tíma. Einhver gæti hugsað og sagt að ég hlyti að hafa vitað af þessum ógreiddu opinberu gjöldum en ég skýrði það í fyrri færslum.
Nú hagar svo til að ég opna heimabankann minn á hverjum degi. Og núna rétt áðan blasti þetta við:
Ókei, upphæðin er lág og ég ætla að játa mig sigraða í þessu stríði af því að ég á við ofurefli að etja en ykkur að segja hef ég ekki fengið þessa markaðsvexti á upphæðina sem ég skuldaði. En hey, ríkissjóð munar um 2.129 kr. og þá er það mín ákvörðun að aumka mig yfir hann og henda út líflínu.
Hins vegar finnst mér undarlegt og ámælisvert að senda mér rukkunina með sama gjalddaga og eindaga OG sama dag og bæði gjalddagi og eindagi er. Rukkunin var nefnilega ekki þarna í gær.
Góða helgi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.