Sunnudagur, 14. mars 2021
Málsmeðferðarhraði
Í fyrradag var ég með bollaleggingar um sköpun starfa. Nú er ég búin að sjá þetta átak auglýst hjá Vinnumálastofnun þannig að þetta er ekki orðalag fjölmiðils heldur stjórnvalds. Ég er enn þeirrar skoðunar að yfirvöld skapi ekki störf heldur ráði fólk í þau störf sem ástæða er til að sinna.
Ég er sannfærð um að stofnanir sem eru hvattar til að taka þátt í að skapa 7.000 störf séu ekkert ofsælar af því hlutskipti. Þegar þær vantar fólk til að sinna ákveðnum verkum eiga þær að fá að auglýsa eftir fólki og ráða á eigin forsendum en ekki þeim að félagsmálaráðuneytið ætlar að skapa störf.
Í Víglínunni, sem ég sé ekki af því að ég er ekki áskrifandi að Stöð 2, sé ég að rætt hafi verið um málsmeðferðartíma í dómsmálum. Við erum búin að vita það lengi leeeengi að mál velkjast of lengi í kerfinu og að refsing sé dæmd minni fyrir þær sakir en ella hefði verið. Kannski þarf ekki löglærða einstaklinga til að telja dagana sem mál frestast heldur þyrfti að nota þá til að fara yfir málin og mögulega þyrfti að fjölga þeim sem gætu unnið að lúkningu mála í stað þess að fresta, tefja og dvelja við keisarans skegg.
Ég er sem sagt enn sannfærðari í dag en ég var í gær um mikilvægi þess að ráða fólk í verk sem liggur á frekar en að skapa störf sem eru einkum til þess að hafa gert það.
Með semingi rifja ég upp eitt sumar þar sem ég var í vinnu og tvær vænar konur voru ráðnar í skapandi starf og þær sátu og prjónuðu megnið af starfstímanum.
Styttum frekar vinnuvikuna og nýtum vinnutímann betur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.