Exit II

Það er freistandi að afgreiða nýju norsku þáttaröðina sem ógeðslega. Fjórmenninganir eru það, ógeðslegir. Mér finnst það. En eins og oft finnst mér ástæða til að líta á það umhverfi sem leyfir þetta.

Ég þekki ekkert til í Noregi en mér skilst að þættirnir byggi á viðtölum við menn sem komast upp með allt og gera þar af leiðandi allt, stunda innherjaviðskipti og auðgast brjálæðislega á afköstum, hugmyndum og vinnusemi annarra, líta á fólk sem leikföng, brjóta þau í stundaræði og henda svo, fá leiða á lífinu af því að það er of hægt. 

Mér skildist að þessi þáttaröð væri meira út frá eiginkonunum. Tjah, sjónarhornið var kannski aðeins meira hjá þeim en mér fannst viðtalið við Henrik varpa mestu ljósi á söguefnið. Eiginkonurnar voru fórnarlömb en sumum leið samt vel í gullbúrunum sínum. Og veruleikinn virðist vera sá að munurinn á milli stétta er gegndarlaus. Ég þekki hvorugan endann í mínu makindalega millistéttarlífi, hvorki neinn forríkan né sárafátækan, en af hverju ættu þessir siðspilltu ekki að vera til í íslensku samfélagi, rétt eins og í nágrannalandinu?

Fyrir 20 árum vann ég með brjálæðingi sem var sagður nota smjörsýru. Hann var ómögulegur en ég undraðist oftar og meira hvernig yfirmenn litu framhjá stjórnlausri og óviðeigandi hegðun hans. Það verður alltaf til klikkað fólk, hamslausir stjórnmálamenn, gráðugir kaupsýslumenn, óhæfir starfsmenn - fólk sem fer alltaf eins langt og það kemst. Samfélagið á að setja þessu fólki stólinn fyrir dyrnar. 

En ég held að við gerum það ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband