Mánudagur, 22. mars 2021
Sumarlokanir leikskóla
Í Hafnarfirði stendur núna til að loka leikskólunum ekki í sumar til að koma til móts við foreldra sem geta ekki tekið frí á þeim tíma sem leikskólarnir væru ella lokaðir.
Ákvörðun um þetta var tekin í fyrra en á að koma til framkvæmda í sumar. Félag leikskólakennara leggst gegn þessari hugmynd og rétt í þessu heyrði ég mann á Bylgjunni tala gegn þessu með þeim rökum að sumaropnun bitnaði á faglegu starfi leikskólanna.
Ha?
Leikskólar hafa oft verið undirmannaðir, mannaðir ófaglærðu starfsfólki og börnin send heim vegna veikinda starfsmanna. Leikskólar eru fyrsta skólastigið og þar er víða(st) sem betur fer metnaðarfullt starf en börn þurfa ekki endalausa þemadaga. Börn þurfa umhyggju, umönnun og að læra að leika sér. Öllum er hollt að leiðast stundum því að þá fer sköpunin í gang.
Viðmælandinn á Bylgjunni sagði að þessi ákvörðun bitnaði á faglegu starfi og þess vegna hefðu 19 leikskólakennarar sagt upp!
Ha?
Og er það faglegt?
Heimir og Gulli margspurðu hvort ekki vægju neitt sjónarmið foreldra sem geta ekki tekið frí þegar leikskólinn fer í frí og eru þá með endalausir reddingar fyrir barnið í skyldufríi frá leikskólanum. Þeir spurðu líka hvort þessir 19 leikskólakennarar hefðu ekki bara sagt upp til að skapa þrýsting.
Það geta verið rök fyrir því að hafa leikskólann lokaðan í fjórar vikur fyrir öll börn á hverju sumri en þeim var ekki teflt fram í þessu viðtali sem ég hlustaði á áðan.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.