Fimmtudagur, 25. mars 2021
Vöflur
Ég er núna með böggum hildar. Í gær var ég í verkefnavinnu með samnemendum mínum í HÍ. Í fyrsta lagi er grátlegt að fá ekki að klára verkefni sem var næstum búið. Við áttum að taka síðustu viðtölin í dag en nú má enginn koma inn í háskólabygginguna. Heimsbyggðin líður ekki skort þótt við klárum ekki þáttinn sem var á verkefnaskránni en það bitnar á okkur sjálfum.
Ein setningin sem ég hafði skrifað í sameiginlega textaskjalið var að vöflur hefðu komið á viðmælendur okkar. Tvö úr hópnum rak í rogastans yfir þessu orðalagi og þau spurðu hvað vöfflur kæmu málinu við. Ég er hér aðeins að færa í stílinn en niðurstaðan varð að breyta vöflunum í að viðmælendur hefðu verið hikandi.
Sem grunn- og framhaldsskólakennari þurfti ég oft að útskýra orðalag sem mér var tamt en markmiðið var að stækka orðaforðann. Nú hef ég áhyggjur af því að þeir sem treysta sér ekki til að bæta við orðaforða sinn nái yfirhöndinni og að við verðum öll alltaf hikandi.
Þetta er ekki heimsósómafærsla hjá mér, þetta kom allt bara dálítið flatt upp á mig. Ég tek samt hatt minn ofan fyrir þeim að nenna að ræða þetta og fá mig ofan af orðalagi sem þeim þótti óþjált.
Og þau eru sannarlega búin að stækka reynsluheiminn minn í vetur!
Athugasemdir
Mér finnst alltaf svo skemmtilegir pistlar um málfar. Ef þú segir samnemendum þínum að þú sért með böggum hildar, vita þau þá hvað þú átt við? Ég hefði skilið vöflur þó mér sé það ekki tamt, held ég noti það ekkert.
Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 25.3.2021 kl. 15:01
Nei, ég hefði ekki vogað mér að segja þeim að ég væri með böggum hildar. Ég hef sannreynt að fæstir skilja það þannig að ég flagga því sjaldan.
Berglind Steinsdóttir, 25.3.2021 kl. 15:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.