Með kápuna á báðum öxlum

Afsakið umburðarlyndi mitt en mér finnst eins og ég skilji bæði sjónarmiðin, bæði þeirra sem vilja með lögum og reglugerðum skikka alla mögulega sóttbera í sóttkví sem koma til landsins og líka þeirra sem vilja fá að taka sóttkvína út heima hjá sér. Við viljum hefta útbreiðslu faraldurs og hér er sannarlega farin vægari leið en sú sem við heyrum af í öðrum Evrópulöndum, eins og útgöngubanni frá kvöldi til næsta morguns, alls ekki fara fjær heimilinu en 10 km, bara fara út til að sækja nauðsynjar o.þ.h. 

En ég skil sannarlega líka að fólk upplifi ekki lúxus að vera lokað inni á hóteli, þótt það sé gott og aðbúnaður góður, þegar það getur ekki gert neitt nema hafa ofan af fyrir sér. Þegar fólk er heima getur það ... já, verið eins og heima hjá sér án þess að brjóta endilega á neinum.

Ég geri ráð fyrir að sóttvarnateymið sé hins vegar dálítið fast fyrir af því að það er búið að upplifa að fólk svíkist um að gera það sem það á að gera og það sem það lofar að gera. Sjálf er ég svo ári löghlýðin að ef ég álpaðist til útlanda og þyrfti að bíta í þetta súra hótelepli myndi ég gera eins gott úr því og ég gæti án þess að mögla. Og annað, þótt 10.000 kr. (sem verður byrjað að rukka fyrir nóttina eftir tæpa viku) séu hóflegt gjald fyrir hótelgistingu með fullu fæði munar margt fólk um 50.000 gjald fyrir að missa frelsi sitt.

Ég skil ekki æsinginn í umræðunni, það eru svo augljóslega a.m.k. tvær jafngildar hliðar á málinu. Afsakið sum sé umburðarlyndi mitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband