Hver fer ekki í sóttkví?

Ég fylgdist lauslega með upplýsingafundi Almannavarna í gær, kannski bara nóg til að sjá að Víðir er áfram yfirvegaður og laus við dómhörku. Ég þekki ekkert til á þeim vinnustöðum þar sem fjöldinn allur hefur þurft að fara í sóttkví og veit ekki til þess að ég þekki neinn sem hefur kinokað sér við að fara í sóttkví eftir ferð til útlanda.

Hver fer til útlanda á tímum heimsfaraldurs og hver fer ekki í sóttkví við heimkomu?

Kannski eru sumir í þessum hópi sem hafa farið til heimalandsins að vitja um aldraða foreldra eða ömmur og afa eða veika ættingja. Dauðinn biður ekki um leyfi til að sækja fólk þótt nú standi illa á. Þótt ég þurfi ekki að fara til útlanda í bráð dettur mér ekki í hug að fordæma alla sem gera það. Ég veit ekki um aðstæður allra.

Og af hverju fer fólk ekki í skyldusóttkví þegar það kemur heim ef það hefur þurft að fara til útlanda? Sjálfsagt hefur það ekki talið sig veikt en það eru engin rök. Við stoppum við rautt ljós þótt enginn sé að fara yfir á græna ljósinu. Við spennum beltin þótt við ætlum að keyra á löglegum hraða. Við búum í samfélagi og flest hlítum við þeim reglum sem samfélagið hefur komið sér saman um. 

Þess vegna er ég að velta fyrir mér ástæðum þess að einhver fari ekki í sóttkví við heimkomu, sérstaklega eftir alla umræðuna sem spannst um dóminn sem féll um páskana

Hver gerir það? Einhver starfsmaður leikskóla? Af því að hann ætlar að smita börn, foreldra og samstarfsfólk?! Nei, pottþétt ekki. Ef um er að ræða starfsmann á leikskóla detta mér tvær ástæður í hug og þær eru tengdar: 1) Það er mannekla og viðkomandi getur ekki verið lengur í fríi og 2) viðkomandi er ekki í sóttkví á launum og hefur ekki efni á að vera í launalausu fríi í þrjá til fimm daga.

Ég sá yfirvegað viðtal við Þóru Björgu Gígjudóttur sem á barn á Jörfa. Yfirvegun er hins vegar ekki orðið sem á við um viðbrögðin við fréttinni.

Ef ég hefði sjálf verið í útlöndum hefði ég öll tækifæri til að halda mér til hlés í fimm daga en ég myndi ekki dæma þá sem geta/gera það ekki fyrr en ég vissi málavexti. Ég hata meðvirkni en mér finnst ekki vera meðvirkni að vilja vita hvað gekk á áður en ég dæmi. Og ég trúi því að sá sem braut af sér hafi einhverjar málsbætur þangað til annað sannast.

Það hvarflar ekki að mér að nein heilvita manneskja vilji senda sirka 100 manns á spítala og 2.700 manns í sóttkví eins og franska ferðamanninum frá því í fyrrasumar er ætlað. Ef það sannast hins vegar að brot hans hafi verið af ásetningi á að sleppa silkihönskunum og taka á honum og hans broti sem ásetningsbroti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband