Sunnudagur, 13. júní 2021
Snillingarnir sem útskrifast - viðurkenningablæti
Ég ímynda mér að foreldrar haldi að þeir séu að gera börnum sínum gott þegar þeir hrósa þeim í hástert. Fyrir nokkrum áratugum held ég að stefnan hafi verið að hrósa sem minnst til að gera afkomendurna sterka og sjálfstæða. Það er því ýmist í ökkla eða eyra af því að við hljótum að vera sammála um að meðalhófið sé best.
Verðskuldað hrós er dásamlegt og uppbyggilegt. Hrós fyrir góðan árangur, aukaframlag, gott viðmót eða hvað sem er hróssins virði. En það er ekki afrek að verða eins árs og það er ekki kraftaverk að útskrifast úr leikskóla. Börn eru ekki snillingar eða meistarar fyrir að fylgja straumi lífsins.
Þið vitið hvað ég meina.
En nú við síðustu útskrift úr grunnskólum er komið glænýtt þema, uppáskrifuð viðurkenning fyrir góðan árangur í náttúruvísindum, tungumálum og einhverju öðru sem ég man ekki. Það væri gott og blessað ef 80-90% fengju ekki þessa viðurkenningu og skildu 10-20% nemenda eftir í salnum með mikla vanmetakennd.
Þetta viðurkenningablæti náði í mínum huga hámarki þegar móðir stúlku sem fékk ekki viðurkenningu tjáði sig fyrir hönd þeirra mæðgna og gagnrýndi það að flestum nemendum var hrúgað upp á svið með viðurkenningar fyrir smæstu smáatriði en lítill hópur sat eftir á áhorfendabekkjunum. Ef 90% eru farin að skara fram úr er ekki um framúrskarandi árangur að ræða.
Kennarar, skólastjórnendur, foreldrar og aðrir uppalendur mega gjarnan hrósa börnunum sínum í einrúmi og eftir atvkum í fjölmenni en að kalla fólk snillinga og meistara í tíma og ótíma gjaldfellir alvöruhrós. Og það að hrósa einum með því að gera lítið úr öðrum er ömurleg framkoma.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.