Fimmtudagur, 17. júní 2021
Hefurðu tekið áhættu?
Ég horfði á ansi magnaða mynd á RÚV í gærkvöldi, Hinstu kveðjuna (2017). Að vísu valdi þýðandinn annan titil en þar sem myndin er öll um minningargreinar finnst mér hann hafa misstigið sig þar.
Mögnuð mynd, segi ég. Shirley MacLaine (sem er stóra systir Warrens Beattys en ég vissi það ekki fyrr en núna) leikur úrilla konu á níræðisaldri sem ræður leigupenna til að skrifa minningargrein um sig. Samstarfið hefur áhrif í báðar áttir og það hafði líka áhrif á mig. Sem betur fer hefur margt áhrif á mann; fólk, bækur og bíómyndir. Ein spurningin sem ég tek með mér út úr þessu áhorfi er:
Hef ég tekið áhættu?
Ég hef sagt og hugsað þannig um líf mitt að það sé umvafið bómull. Ég er forréttindapési, alin upp við alúð og allsnægtir og hef alltaf getað farið og gert eins og hugur minn hefur staðið til. En ég hef haldið mig í þægindarammanum. Ég tek ekki áhættu, ég ana ekki út í óvissuna. Ég er þægindafíkill og ég hafði/hefði gott af að láta ýta við mér eins og blaðakonan sem sú fullorðna réð til að skrifa um sig minningargrein.
Flest þorum við ekki einu sinni að segja það sem okkur finnst af því að það er óþægilegt fyrir alla. Harriet Lauler lætur það hins vegar ekki þvælast fyrir sér ...
Ég las nokkra dóma um myndina og þeim bar öllum saman um að hún fengi falleinkunn og að kröftum Shirley væri illa varið í henni. Ég er samt þeirrar skoðunar að sagan hafi átt erindi til mín.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.