Pabbi 1921-2019

Í dag, á kvenréttindadaginn 2021, hefði pabbi minn orðið 100 ára ef hann hefði lifað. Hann átti alveg góða möguleika á því vegna þess að hann var hraustur og dugmikill maður. Hann var mikill íþróttamaður sem missti sig á miðjum aldri í talsvert át á sama tíma og hann minnkaði hreyfingu en hann vann hreystina til baka eftir sjötugt. Hann gekk og synti alla daga en ekki var minna um vert að hann var algjör hamhleypa til þeirra verka sem hann tók sér fyrir hendur, svo sem að endurbæta sumarbústað.

Hann var rafvirki að mennt og dró rafmagn í ótal stórra og smárra húsa sem voru byggð í Reykjavík um og eftir miðja 20. öld. Hann rak eigið fyrirtæki með miklum glæsibrag og hafði marga góða menn í vinnu. Þeir voru góðir menn og miklir verkmenn en pabbi hafði líka jákvætt hvatakerfi til að laða fram þeirra bestu hliðar. Þegar maður er með mörg útistandandi verk er mikilvægt að geta treyst mönnunum sínum til að gera það sem þarf. Og þetta var auðvitað fyrir tíma farsímanna sem kallaði á skýrt skipulag í upphafi hvers dags.

Í tilefni dagsins ætlum við systkinin þrjú að fara austur á heimaslóðir pabba, hitta nokkur ættmenni okkar, systkinabörn pabba, og drekka saman kaffi í hans nafni. 19. júní verður í mínum augum og huga alltaf merkisdagurinn hans pabba og ég verð öll meyr við að skrifa þetta.

Til hamingju með daginn.

---

Neðan máls ætla ég að leyfa mér að segja að ef starfsmenn Hrafnistu, þar sem pabbi ól manninn síðustu tæpu tvö árin sín, hefðu ekki misst hann í gólfið þrisvar eða fjórum sinnum hefði hann átt betri lokaár. Þótt við systur færum til hans alla daga - alla daga - gátum við ekki fyrirbyggt það að pabbi dytti margsinnis á gólfið, algjörlega að óþörfu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband