HHÍ eða lottó

Ég veit að bestu auglýsingarnar eru þær vondu af því að fólk talar um þær og nú ætla ég að ganga lóðbeint í gildruna.

Lottóauglýsingarnar sem fela í sér klikkuð símtöl þar sem fólk pantar pítsu með þyrlu eða kaupir demanta í kílóavís af því að það vann þann stóra höfða til óþarflega lágra hvata mannsins. Í öðru orðinu er verið að selja fólki lottó af því að það styðji við íþróttastarf í landinu og í hinu orðinu er verið að selja fólki lottó til að það geti grætt svo mikið að allir verði að ómerkilegum þjónum hins heppna.

Ég hugsa að okkur finnist flestum næs að vinna eitthvað smá og ég er alveg í þeim sporum. Ég vann einmitt 12.000 kr. í útdrætti hjá Happdrætti Háskóla Íslands sem voru lagðar þegjandi og hljóðalaust inn á reikning hjá mér um miðjan síðasta mánuð. Sem betur fer er HHÍ þó enn í gróða eftir áralanga samferð okkar enda keypti ég miða fyrst og fremst til að láta lítilræði rakna til háskólans.

Og fyrir utan hvað þessar auglýsingar frá lottóinu eru ósmekklegar eru þær órökréttar. Sá sem svarar í símann er ekki sá sem vann þann stóra heldur sá sem hringdi. Hlustið bara næst ef þið voruð ekki búin að átta ykkur á þessu og takið eftir að hugmyndin gengur ekki upp. Maður „fær ekki áhugavert símtal“ þegar maður græðir heldur „hringir áhugavert símtal“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband