Mánudagur, 12. júlí 2021
Fákeppni á bankamarkaði
Húsnæðisvextir lækkuðu (í fyrra?) og íbúðir seldust eins og enginn væri morgundagurinn. Um daginn var tilkynnt um hækkun vaxta. Skaðinn var skeður og nú situr fólk sjálfsagt uppi með miklar skuldir og hærri vexti en það taldi að það þyrfti að borga í mörg ár.
Ég er ekki ánægð með bankann minn og hugsaði mér að flytja mig yfir í Landsbankann. Ég lagði milljón inn á læstan reikning fyrir þremur mánuðum. Ég er 95% viss um að vextirnir áttu að vera 1%. Eftir tvo mánuði gáði ég á reikninginn og sá að ekki hafði króna uppfærst, eins og gerist þó í aðalviðskiptabanka mínum.
Ég sagði reikningnum upp og upphæðin átti að losna á föstudaginn var. Hún gerði það og var flutt á hinn reikninginn í þeim banka. Engir vextir. Í þrjá mánuði kom ekki króna í vexti. Ég fór því í hádeginu og spurðist fyrir. Já, þá liggur þannig í því að vextirnir eru uppfærðir í lok árs eða ef reikningurinn er eyðilagður.
Ég bað starfsmanninn að eyðileggja reikninginn og nú var ég að gá að fúlgunum. Ein milljón varð á þremur mánuðum að 1.000.972 kr. Ég fékk 972 kr. í vexti á þremur mánuðum. Ein milljón hefði þá gefið af sér 3.888 kr. á heilu ári.
Er þetta í einhverju samhengi við upphæðina sem lántakendur borga af milljón á einu ári?
Ég halla mér þá að Auði sem hefur staðið við 1% vexti og peningurinn er alltaf laus.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.