Mánudagur, 9. ágúst 2021
Skrattakollurinn
Fyrir allmörgum árum var mér kynnt regla sem hljóðaði nokkurn veginn svona: Maður sendir ekki í tölvupósti annað en það sem má rata á forsíðu DV.
Ég hlustaði á Vikulokin á laugardaginn og Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans, kom ljómandi vel fyrir. Sigmundur Ernir Rúnarsson, nýráðinn ritsjóri Fréttablaðsins, komst líka vel frá orðahnippingum þeirra tveggja. Það er nefnilega hægt að leggja fram andstæð rök og sjá báðar hliðar.
Ég hefði ALDREI skrifað, hvorki seint né snemma dags, 200-300 manns sem ég þekki misvel tölvupóst þar sem ég gæfi heilli starfsstétt viðurnefni, alveg sama þótt það sé krúttlegt í einhverju samhengi. Ég ætlaði ekkert að hugsa upphátt um þetta upphlaup síðustu viku en nú las ég þráð á Facebook þar sem flestir lýsa yfir ánægju sinni með skrattakolla.
Samkvæmt Snöru er skrattakollur hnjóðsyrði og orð svipaðrar merkingar sem eru gefin upp eru: þrjótur, djöflakollur, djöflamergur, skarfur, skelmir, strákskratti. Snara gefur ekki upp krútt en ég skil alveg að margir málnotendur geti hugsað sér að nota það í góðlátlegri merkingu, sbr. ömmuna sem kallaði barnabarnið litlaskít og allir, eða margir, vöndust því sem gæluyrði.
Ég er hins vegar sammála þessum ummælum á þræðinum:
PS - sé við lestur hér fyrir ofan að fólki finnst þetta "krúttlegt" orð og jafnvel prakkaralegt - held ekki að fólk taki að sér störf blaða- og fréttamanna til að vera "krúttlegt" eða ætlist eða langi til að litið sé á það sem prakkara.
Og:
Ritaður texti svo engin leið að vita hver hugur býr að baki. Í talmáli ræðst það af tóni og tjáningu eins og við vitum öll.
Ég er innilega sammála þessum tveimur.
Fyrir hálftíma bættust svo við frekari rök gegn því að kalla fólk skrattakolla.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.