Föstudagur, 13. ágúst 2021
Ég nota ekki reiðhjólahjálm
Þegar ég hjólaði mjög dömulega í kjól og án yfirhafnar upp Frakkastíginn á leið heim úr vinnu í dag mætti ég stútungskalli um fertugt sem læddi út úr sér um leið og við mættumst: Þú manst hjálminn næst.
Svo fór hvort sína leið og sjálfsagt hugsaði hvort sitt. Ég hugsaði:
Ég hef 40 ára reynslu af að hjóla í umferðinni. Hjálmar voru ekki almennir þegar ég var barn og unglingur. Ég hef áreiðanlega einhvern tímann dottið um dagana en ég hef aldrei slasast. Ég hjóla einhverja kílómetra á næstum hverjum degi en almennt ekki á stofnbrautum og einfaldlega aldrei of hratt.
Í umferðarlögum segir í 1. mgr. 79. gr.:
79. gr. Öryggis- og verndarbúnaður óvarinna vegfarenda.
Barn yngra en 16 ára skal nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar.
Ég er eldri en 16 ára og mér ber ekki skylda til að nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar.
Margt annað í lífinu er áhættusamt en ég myndi aldrei segja við nokkurn mann, síst bláókunnugan: Þú manst að reykja ekki þessa sígarettu næst. Ekki klára súkkulaðið. Slepptu bjórnum. Leiktu við barnið þitt frekar en að segja því að láta þig í friði. Taktu meiri þátt í heimilisverkunum.
Af hverju finnst ókunnugu fólki í lagi að vanda um við ókunnugt fólk sem er ekki einu sinni að brjóta af sér?
Athugasemdir
Hvað er Stútungskall? Hvenær verður kall Stútungskall? Hvenær verður þú Stútungskelling? Ertu kannski Stútungskelling, nú þegar?
Rafn Haraldur Sigurðsson, 21.8.2021 kl. 21:36
Ó, ég missti af þessari athugasemd þegar hún var birt en mér er ljúft að segja að ég valdi þetta orð af mikilli vandvirkni, vitandi að það gæti valdið vafa. Yfirleitt er stútungskall eldri karl og stútungskelling eldri kona í mínum augum en þessi tiltekni karl var svo forpokaður, fannst mér, að ég myndi skella honum nokkra ártugi aftur í tímann, jafnvel aldir. En kannski var Rafn ekkert að vonast eftir svari.
Stútungskall er almennt ekki skammaryrði samt. Og ég er alveg gott efni í stútungskellingu miðað við aldur.
Berglind Steinsdóttir, 28.8.2021 kl. 13:59
Takk fyrir þetta svar, sennilega er ég orðinn stútungskall fyrir nokkru síðan.
Rafn Haraldur Sigurðsson, 29.8.2021 kl. 20:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.