Mánudagur, 23. ágúst 2021
Unglingar vilja sumarfrí
Þegar ég var unglingur þótti sjálfsagt að vinna launavinnu í öllum fríum; páskafríum, sumarfríum og jólafríum. Það þótti líka sjálfsagt að vinna með skóla. Mér finnst sem það hafi heyrt til undantekninga að vinir mínir hafi ekki unnið með menntaskóla, þá helst seinni part viku og um helgar. Eftir stúdentspróf fór ég heilan mánuð til útlanda og fannst ég svolítið hafa tapað þeim vinnumánuði þegar ég loks mætti hjá póstinum til að flokka og bera út. Samt var það auðvitað ekkert tap því að stúdentsferðin var frábær. Frábær! Og árin á undan hafði ég líka byrjað í sumarstörfunum (eitthvað nýtt á hverju ári) í lok apríl eða í síðasta lagi um miðjan maí.
Þetta er breytt. Unglingar vilja sumarfrí og helgarfrí. Ég var aðeins byrjuð að undrast þetta þegar ljósið rann upp fyrir mér. Mér fannst alltaf gaman að mæta í vinnuna; á færibandið í fiskvinnunni og í súkkulaðiverksmiðjunni, flokka og bera út póst og mæta í bankann til að - ég man reyndar ekkert hvað ég gerði sumarið mitt í Búnaðarbankanum. Um helgar var ég í fatahenginu í Leikhúskjallaranum.
Þetta var félagslegt og skemmtilegt, fullt af fólki á mínum aldri. Unglingar í dag þurfa ekki að fara út úr stofunni til að vera í samskiptum og upplifa félagsleg tengsl frekar en þau vilja.
Og sjálf er ég að breytast í 21. aldar ungling. Ég vil stytta vinnuvikuna, reyndar ekki vegna þess að mér leiðist í vinnu, alls ekki, heldur vegna þess að tæknin öll, tæknibylting síðustu 50 ára, hefur létt okkur störfin og auðveldað okkur að njóta frítímans. Frítíminn á ekki að byrja þegar við verðum 67 ára.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.