Sunnudagur, 29. ágúst 2021
Innanlandsflug í Vatnsmýri vegna sjúkra/slasaðra?
Ég vil flugvöllinn burtu úr Vatnsmýrinni. Ég veit ekki hvort spítalanum er best komið fyrir við Hringbraut, kannski en kannski ekki, en mér er fyrirmunað að skilja af hverju sjúkrahúsið í Keflavík er ekki betur notað í bráðatilfellum. Ef sjúkrahúsið í Keflavík væri alltaf vel í stakk búið væri auðvelt að hafa miðstöð innanlandsflugsins þar af því að fólk sem á heima úti á landi gæti viljað fljúga beint til Keflavíkur, ganga einn gang og fara svo í utanlandsflugið sitt.
En, nei, hávær minni hluti sífrar um það að innnanlandsflugið verði að vera í Vatnsmýrinni út af sjúkum og slösuðum. Er ekki þyrlupallur við spítalann sem hægt er að lenda á ef þyrla sækir slasaðan einstakling, t.d. upp á fjöll eða út á sjó?
Og nú fréttist að áætlunarflugi til Vestmannaeyja verði hætt. Er þá Vestmannaeyingum sama um öryggið? Vegur kannski efnahagssjónarmiðið þarna meira? Ég hef ekki flogið til Vestmannaeyja í áratugi en ég veit um fólk sem varð að sleppa jarðarför í Vestmannaeyjum fyrir einhverjum árum af því að flugið átti að kosta 50.000 fyrir hvort þeirra. Skiljanlega gátu þau ekki keypt miða tímanlega og fengið eitthvert hoppgjald eða hvað það heitir.
Það er svo mikil skinhelgi í þessum flugmálum og tilfinningarnar alls ráðandi. Einhver hópur sem mig grunar að sé ponsulítill vill komast á inniskónum frá t.d. Akureyri og í Stjórnarráðið á þremur korterum. Léttlest frá Keflavík til BSÍ held ég að myndi svara megninu af þörf þess fólks og Dalvíkingar sem gætu viljað komast í tenerífska sól gætu á hinn bóginn sleppt því að gista eina nótt í Reykjavík á leið sinni til útlanda.
Athugasemdir
Mikið er ég sammála þér. Ef Akureyra-Egilstaðaflugvellir duga ekki sem varaflugvellir þá ætti að byggja varaflugvöllinn fyrir austan fjall t.d. Hvolsvelli, Hellu eða einhverstaðar á því svæðinu. Landið sem Reykjavíkurflugvöllurinn er eitt flottasta íbúðarsvæði með Nauthólsvík sem væri hægt að byggja upp og gera að algjörri paradís og svo er líka þarna Öskjuhlíðin sem líka væri hægt að byggja upp. Þetta snýst allt um pólitík en ekki skynsemi.
Sigurður I B Guðmundsson, 29.8.2021 kl. 12:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.