Mánudagur, 30. ágúst 2021
Hver er sekur?
Allt sómakært fólk hlýtur að líta stundum í eigin barm og velta fyrir sér hvort það hafi stigið á tær. Ég geri það stundum.
Ég gæti rantað dágóða stund um þá skoðun mína að fólk eigi að segja satt og koma vel fram við fólk, beita það ekki ofbeldi eða brjóta á því á annan hátt. En við erum öll sammála um það.
Spurningin er meira um mörkin. Hvenær trúum við því að einhver hafi gerst brotlegur um eitthvað? Er freistandi að stinga höfðinu í sandinn eða fela það bak við skjáinn og vona að vandinn hverfi?
Já, það er freistandi. Þegar maður stendur með einum er maður stundum að taka afstöðu gegn öðrum í leiðinni. Það er leiðinlegt að vanda um við vini sína. Það er íþyngjandi að þurfa að segja við fólk sem er oft alveg frábært: Þessi hegðun, t.d. að viðhafa niðurlægjandi ummæli eða beita líkamlegu ofbeldi, er ekki í lagi og ég mun ekki líða hana.
Margir unglingar hafa heyrt jafnaldra sína gera lítið úr skólafélögum og það er augljóslega erfitt hlutskipti að þurfa að segja við sessunaut eða náinn bekkjarfélaga að orðbragðið sé ekki við hæfi.
Það er margt erfitt í lífinu og það getur verið hundleiðinlegt að vera yfirmaður eða í áhrifastöðu og hafa umboð og skyldur til að setja fólki stólinn fyrir dyrnar.
En oft fær fólk líka hærri laun en aðrir starfsmenn af því að það axlar - í orði kveðnu - ábyrgð. Fólk sem leitar í slík störf verður að hafa kjark og einurð til að taka líka slagina og leiðinlegu samtölin.
Já, ég er að tala um toppana hjá KSÍ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.