Sunnudagur, 5. september 2021
Morðhótun
Ég er ekki fórnarlamb, en á langri ævi hef ég auðvitað upplifað einhver áföll. Þegar ég var yfirmaður manns í menningarlífinu fyrir 20 árum varð hann mjög ósáttur við að ég vildi fara eftir reglum sem meira að segja hann sjálfur hafði tekið þátt í að setja. Hann lagði sig fram um að gera lítið úr mér og kvartaði undan mér við nefndina sem ég starfaði með. Nefndin hlustaði á hans sjónarmið á löngum fundi en spurði mig aldrei út í mitt sjónarmið. Samt var hann fræg fyllibytta í þeim bæ og annálaður fyrir að fara á skjön við allt regluverk. Minn næsti yfirmaður stóð með mér en þegar þessi undirmaður hringdi í mig um miðja nótt til að hóta mér lífláti og skar svo á dekkin á bílnum mínum var mér næstum allri lokið. Ég kláraði samt á endanum ráðningartímann með óbragð í munninum.
Út af líflátshótuninni fór ég til lögreglu með upptökuna en hún yppti öxlum og sagðist hvorki vera með búnað né mannskap til að bregðast við. Með það fór ég og lét gott heita. Ég veit sjálf sannleikann en ef múgur manns segði við mig að ég væri að ljúga, að mig misminnti eða ég væri almennt rugluð gæti verið að ég færi að efast um geðheilsu sjálfrar mín.
Kannski er það bara mitt lán að ég hef ekki mikið haft orð á þessu síðan. Einhverjir í kringum mig vissu af þessu en ég held að við höfum öll verið meðvirk og kannski of meðvituð um að við búum í svo karllægu samfélagi að flest er túlkað körlunum í vil.
Hann drap mig samt ekki en kannski bara vegna þess að ég forðaðist að stíga á tærnar á honum. Ég lúffaði og slapp við líkamlegt ofbeldi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.