Þriðjudagur, 28. september 2021
Kosningar á Íslandi
Ég ætla ekki að alhæfa, en ég vann í nokkur skipti í kjördeildum í Reykjavík og varð aldrei vör við neina hnökra. Ég vann ekki við talningu, heldur við að taka á móti atkvæðum og eins og ég segi varð ég aldrei vör við að menn gæfu afslátt af fagmennsku.
Mér finnst að við verðum að fara varlega í að hrópa niður almenn faglegheit þótt ég sé á því að Borgarnesdeildin hafi ekki staðið sig. Ef lögin kveða á um að gögnin skuli geymd innsigluð á að geyma þau innsigluð, sbr. lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000:
104. gr.
Að talningu lokinni skal loka umslögum með ágreiningsseðlum með innsigli yfirkjörstjórnar og eiga umboðsmenn lista rétt á að setja einnig fyrir þau innsigli sín. Yfirkjörstjórn sendir [ráðuneytinu] 1) eftirrit af gerðabók sinni viðvíkjandi kosningunni ásamt ágreiningsseðlunum sem [ráðuneytið] 1) leggur fyrir Alþingi í þingbyrjun með sömu ummerkjum sem það tók við þeim.
Þá skal yfirkjörstjórn setja alla notaða kjörseðla undir innsigli og skal gildum og ógildum kjörseðlum haldið sér. Kjörseðlana skal geyma þar til Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninganna, sbr. 120. gr., enda sé þeirra eigi þörf vegna kæru sem beint hefur verið til lögreglustjóra. Að því búnu skal eyða kjörseðlunum og skrá yfirlýsingu um það í gerðabók yfirkjörstjórnar.
Yfirkjörstjórn skal búa um allar kjörskrár í innsigluðum umbúðum og senda [ráðuneytinu] 1) sem geymir þær í eitt ár, en að því búnu skal eyða þeim.
Nú er búið að telja aftur í Suðurkjördæmi og þar stemmdi allt. Vonandi skýrast málin í Norðvesturkjördæmi með morgninum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.