Fimmtudagur, 4. nóvember 2021
Kveikur
Ég horfði á Kveik á þriðjudagskvöldið. Fyrstu 10 mínúturnar hafði ég samúð með Þóri og ég held að hann hafi einlæglega beygt af þegar hann talaði um hlutskipti sitt og sona sinna. Eftir kannski korter fór ég að upplifa þáttinn eins og atvinnuumsókn. Ég hef oft hugsað og sagt að mér finnist að fólk eigi að fá að vinna fyrir sér, ef ekki þess sjálfs vegna þá vegna allra hinna. Varla viljum við framfleyta fólki sem hefur þrek og færni til að vinna fyrir sér sjálft. Ef fólki er varla treystandi til að vera án eftirlits verða atvinnutækifærin að taka mið af því.
Þegar þátturinn var að verða búinn var viðmælandinn búinn að fyrirgera allri trú minni á að hann teldi sig hafa gert nokkurn skapaðan hlut sem var óviðeigandi. Mér fannst hann upplifa sjálfan sig sem mesta fórnarlambið. Steininn tók úr þegar hann sagðist aðeins hafa val um tvennt, að flýja til útlanda eða verða glæpamaður.
Hvað gekk Kveik til? Þórir var þarna einn til frásagnar. Ungu stúlkurnar sem sendu honum mynd/ir og báðu um mynd/ir - að sögn - vildu ekki koma í viðtal. Var þá virkilega enginn annar í boði til að sýna hina hliðina? Auði Lilju detta nokkrir aðilar í hug.
Ég er búin að lesa nokkra þræði síðan í fyrradag. Sums staðar gagnrýnir fólk foreldra stelpnanna fyrir að ala þær ekki betur upp, fyrir að leyfa þeim að vera á Tinder (eða banna þeim það ekki) og fyrir að egna fyrir leikarann gildru. Það er alveg umhugsunarefni, en dettur því fólki ekki í hug að gera þá kröfu til 36 ára mannsins að hann sýni af sér betri dómgreind?
Umræðan um (glæp og) refsingu, umræðan um hvenær nóg er orðið nóg, hvort menn eigi aldrei að fá uppreisn æru og hvort menn skuli dæmdir til ævarandi atvinnuleysis á sannarlega rétt á sér. Skiljanlega stækka líka augun í fólki þegar við rifjum upp að dæmdir barnaníðingar eru í umferð en leikarinn fær ekki að vinna fyrir sér.
Einn vinur minn sagði að Þórir væri beittur ofbeldi af því að hann fengi ekki að vinna. Mig rak í rogastans. Mér þætti mótlæti að fá ekki að vinna ef mig langaði til þess og þyrfti á tekjunum að halda en ég legg það ekki að jöfnu við ofbeldi eins og ég skil það. Og hver væri gerandinn í því ofbeldi? Atvinnurekendur sem vilja ekki ráða hann? Væri fólk þá ekki að sama skapi beitt ofbeldi þegar það fengi ekki vinnuna sem það langaði mest í eða teldi sig hæfast til að gegna og þá jafnvel með tilhlýðilega menntun?
Í íslenskri samheitaorðabók er þessi skýring gefin á ofbeldi:
ofbeldi
afl, gerræði, ofráð, ofríki, ójafnaður, vald, valdbeiting, valdníðsla, yfirgangur;
En ég er líka hissa á því að framhaldsskólakennari sem varð uppvís að því að misnota stelpur sem voru vissulega orðnar 18 ára en komu frá brotnum heimilum og voru auðveld fórnarlömb sjarmerandi manns í valdastöðu gagnvart þeim sé núna leikskólakennari. Ég má ekki segja nafnið á honum vegna þess að þá er ég farin að brjóta persónuverndarlög!
Ég er ekki þolandi. Ég hef farið í gegnum lífið umvafin bómull. Samt get ég rifjað upp að þegar ég var 15 ára og vann nokkur kvöld við að selja miða inn á skemmtistað spurði mig gamall maður - líklega þá um fertugt - hvort ég væri orðin mannbær. Þegar ég varð bara eitt spurningarmerki flissaði hann svolítið og fór inn á staðinn. Voru foreldrar mínir ábyrgðarlausir að leyfa mér að vinna þarna? Aldurstakmarkið var 20 ár og ég var bara 15. Pabbi minn var líka að vinna þarna. Átti maðurinn eitthvað með að tala svona við mig? Ég man þetta en þetta hefur ekki markerað mig. Ekki frekar en bílstjórinn sem strauk handarbakinu um kinnina á mér, þegar okkur var úthlutað sama smáhýsinu í ferð með túrista, og sagði: Ég hefði ekkert á móti því að liggja með þér. Ég hafði hins vegar heilmikið á móti því og staflaði bókum fyrir dyrnar á mínu herbergi þegar ég fór að sofa vegna þess að enginn lykill fylgdi.
Í mannlegu samfélagi verða alltaf einhverjir sem fara yfir mörk. Glæpir eru framdir, mistök eru gerð, fólk er sært, en það er hægt að lágmarka það með því að tala um vandann, viðurkenna hann og reyna að snúa hann niður.
Þórir Sæmundsson lagði ekkert gott til málanna og ýfði bara fjaðrir þeirra sem hafa orðið fyrir misrétti eða þekkja einhverja sem hafa orðið fyrir barðinu á fólki sem beitir ofbeldi. Fyrir þáttinn hafði ég heldur ekki hugmynd - ekki minnstu hugmynd - um að hann héldi úti nafnlausum Twitter-aðgangi þar sem hann jós úr sér. Einhver sagði að hann hefði rakkað þar niður #MeToo en ég fann það ekki þótt ég fletti býsna langt aftur. Ég sá bara rant manns sem hundleiddist.
Hér var ég að hugsa upphátt. Kannski skipti ég eitthvað um skoðun á næstu dögum ef rök hníga til þess en ég hef sannarlega reynt að uppræta meðvirkni hjá sjálfri mér síðustu ár.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.