Deig

Í spilara RÚV er núna sænsk þáttaröð sem heitir Deg á sænsku. Samkvæmt orðabók er deg deig, já, en það er líka slangur fyrir peninga. Það er bara ekki alltaf hlaupið að því að þýða tvíræðni. Mér finnst báðar merkingarnar jafngildar þegar ég horfi á þáttinn.

En hvað um það, Deig er spennuþáttur sem spilar á spennu, húmor og síðan auðvitað hið vandmeðfarna (ó)siðlega eðli. Hvað gerir maður ef maður finnur 700 milljónir íslenskra króna á víðavangi? Hvað gerir maður með vitneskjuna og peninginn ef maður er um það bil að missa húsið sitt af því að hugmyndin að fyrirtækinu var að floppa og tekjustreymið er ekkert? Hvað gerir maður ef maður á unglingsson sem maður vill að passi í hópinn en hefur ekki efni á að gefa honum allt sem mann langar til? Hvað gerir maður ef maður á fyrrverandi maka sem hefur enga trú á manni?

Hvað gerir sá sem stal peningunum og faldi í holu á víðavangi þegar hann kemst að því að peningarnir eru horfnir og allir fyrrverandi samverkamennirnir ætla ekki að láta mann komast upp með það?

Hvað gerir pabbi þess sem stal peningunum og kom þeim undan en situr sjálfur í fangelsi?

Hvað gerir litli frændi þegar honum er fengið það ógeðfellda verkefni frá einhverjum sér nákomnum að skjóta einhvern sér nákominn?

Og hvað gerir gamli kærasti hennar sem fann peningana í fyrsta þætti?

En kannski langar mig mest að spyrja: Hvað myndum við, venjulega fólkið, gera í þessum sporum?

Fyrir nokkrum árum spurði ég ýmsa í gríni hvað þeir myndu gera ef þeir fyndu 30 milljónir í poka undir steini í Laugardalnum og enginn grunur væri um glæp. Fólk ætlaði strax að hætta að vinna!

Fólk getur auðvitað verið þjakað af álagi og of miklum skyldum en ef maður skyldi nú hafa menntað sig til einhvers og vera í vinnu við hæfi - langar mann þá að hætta allri vinnu - og gera hvað? Kaupa börnin sín af vinnumarkaði líka? Leika við barnabörnin, spila golf, liggja í bókum? Er ekki jafnvægi best á öllum hlutum?

Ef ég fyndi 700 milljónir í íþróttatösku yrði ég skíthrædd. Og þótt siðferðið væri kannski ekki að þvælast fyrir manni má spyrja: Hvernig ætlar maður að nýta sér nýja féð án þess að grunsamlegar breytingar verði á lífsstílnum? Væri það ekki dæmt til að mistakast?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband