Sunnudagur, 7. nóvember 2021
Hinn seki
RÚV sýndi í gærkvöldi alveg magnaða danska mynd, Hinn seka. Lögreglumaður sem hefur gerst sekur um agabrot er látinn svara neyðarsímanum, 112, og leysa þau verkefni sem hann fær frá almenningi í gegnum símann.
Öll bíómyndin er leikin inni í þessari stjórnstöð. Einn leikari ber myndina uppi, Jakob Cedergren. Hann talar við margt fólk í símann, fólk sem við fáum aldrei að sjá. Þetta hljómar sjálfsagt frekar leiðinlega en myndin er svakalega spennandi.
Mér varð í sífellu hugsað til Snörunnar eftir Jakobínu Sigurðardóttur þótt hún sé reyndar bara helmingur samtalsins. Í Snörunni talar maður í síma en lesandinn veit aldrei hvað viðmælandinn segir, lesandinn þarf að geta sér þess til.
Í Hinum seka heyrum við í viðmælendum lögreglumannsins en vitum ekki nóg um kringumstæður til að meta ástandið. Hvað er með Iben? En Mathilde? Hvað með lögreglukonuna sem svarar í hinni stjórnstöðinni og þarf að senda lögreglubíla af stað? Og svo lögregluþjónana sem mæta á heimilið þar sem börnin eru?
Tekur lögreglumaðurinn á símanum réttar ákvarðanir þegar hann ætlar að bjarga Iben? Eða bitna ráðleggingar hans á einhverjum öðrum?
Úr öllu þessu raknar smám saman þegar líður á myndina og við hugsum sannarlega um sekt andspænis sakleysi.
Ég mæli svo innilega með þessari mynd vegna þeirrar hugvekju sem ég upplifði. Og ekki spillir að heyra hið undurfagra tungumál, dönskuna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.