Þriðjudagur, 16. nóvember 2021
Ég vildi að ég kynni að forrita
Ég tók einn valáfanga í menntaskóla þar sem við spreyttum okkur á forritun. Enn hríslast um mig sæluvíma þegar ég rifja upp eitt skiptið sem mér tókst að kóða eitthvað sem virkaði. Það var reyndar eina skiptið enda sneri ég mér í aðrar áttir eftir þetta.
En ef ég kynni að forrita myndi ég hraða stafrænu byltingunni. Ég hef ekki áhyggjur af að störf tapist við það eða að kapítalisminn kaffæri litla fólkið. Það er sjálfstætt úrlausnarefni að tryggja öllum jöfn tækifæri og að við getum öll blómstrað á okkar kjörsviðum.
Ég tók þátt í að innleiða talgreini - sem breytir tali í texta - á fyrri vinnustað og það var bylting sem ég er ógurlega stolt af. Ég ræ nú að því öllum árum á mínum núverandi vinnustað að sjónum verði beint að þess konar þróun sem hentar þar. Sagt er að góðir hlutir gerist hægt - en er það eitthvert lögmál? Mega þeir ekki gerast hratt? Af hverju ættum við ekki að fara vel með tíma og mannauð?
Til hamingju með dag íslenskrar tungu og okkar kæra Jónas Hallgrímsson sem drollaði aldeilis ekki við hlutina - eins gott því að hann varð bara 38 ára.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.