Föstudagur, 19. nóvember 2021
Ég er tvíbólusett
Ég rek ekki fyrirtæki en ef ég gerði það fyndist mér ég mega ráða því hvaða fólk ég hefði í vinnu. Ef ég legði mikið upp úr því að starfsfólkið mitt væri bólusett finnst mér að ég ætti að mega segja upp óbólusettum einstaklingi, þó að sjálfsögðu með samningsbundnum uppsagnarfresti.
Ég hlustaði á Bylgjumenn tala við bæði Láru V. Júlíusdóttur og Magnús M. Norðdahl í dag og varð undrandi á hvað þau tvö, tveir lögfræðingar, voru afdráttarlaus í sínum svörum, bara fullkomlega ósammála.
Það er ekki hægt að vinna öll störf heima eins og virðist vera mantran alls staðar. Ég gæti það mikið til, en hvað með afgreiðslu- og lagerstörf? Hvað með heilbrigðisstarfsmenn?
Ég veit ekkert hvort bólusetningar leysa þennan vanda. Ég get bara sagt að ég treysti sérfræðiþekkingu Þórólfs betur en þekkingu þeirra sem láta ófriðlega í athugasemdakerfum vefmiðlanna.
Ef Landspítalinn væri í betri málum deildum við hins vegar kannski ekki svona hástöfum.
Athugasemdir
Hvernig myndirðu vita hvort starfsmaður væri sprautaður eða ekki, í ljósi þess að um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar sem koma vinnuveitanda ekkert við og er óheimilt að krefja starfsmann um?
Guðmundur Ásgeirsson, 20.11.2021 kl. 14:28
Ég veit það ekki. Getur starfsmaður neitað að upplýsa um þetta? Ég er ekki að reyna að vera með skæting, ég er bara að velta fyrir mér ef einhver, í þessu tilfelli eigandi fyrirtækis, er logandi hræddur um að veikjast og veikjast þá illa. Hvar endar réttur eins og réttur annars byrjar?
Berglind Steinsdóttir, 20.11.2021 kl. 17:16
Að sjálfsögðu getur starfsmaður neitað að gefa vinnuveitanda viðkvæmar heilsufarsupplýsingar og reyndar er almennt óheimilt að krefjast þeirra yfir höfuð. Undantekningar geta þó átt við í störfum þar sem líkamlegt atgervi skiptir höfuðmáli, svo sem slökkvilið og aðilar sem vinna við krefjandi og hættulegar aðstæður. Þó þeir væru ósprautaðir þyrfti það samt ekki að hindra þá frá því að vinna slík störf svo lengi sem þeir eru að öðru leyti heilbrigðir og hraustir.
Guðmundur Ásgeirsson, 20.11.2021 kl. 17:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.